39% aukning heimsókna í Minjahúsið
Í sumar komu 5217 manns í Minjahúsið á Sauðárkróki, sem er 39% aukning frá í fyrra. Af þeim voru 2015 erlendir ferðamenn. Nær helmingur þeirra var í leit að upplýsingum. Minjahúsið var opið milli eitt og níu og var gerður góður rómur að því meðal heimamanna að lengja opnunartímann fram á kvöldið, sem reyndar fáir nýttu sér þótt margir hefðu verið á ferðinni, bæði akandi og gangandi.
Í júlí kannaði Safnaráð upplifun safngesta á ýmsum sýningarstöðum safna í landinu í samstarfi við söfnin. Minjahúsið var einn þessara sýningarstaða. Af könnuninni er margt hægt að læra um það sem betur má fara. Viðbrögð gesta voru fremur dræm. Könnunin lá frammi, við innganginn, þannig að gestir sáu hana á leiðinni inn og svöruðu henni ótilkvaddir á leiðinni út. Samtals 1958 gestir komu í Minjahúsið á meðan könnunin stóð yfir og af þeim svöruðu 30 manns fyrstu nokkrum spurningunum og 19 af þeim svöruðu flestum. Af þeim voru 77% að koma í fyrst sinn í Minjahúsið. Aðrir höfðu komið áður. Flestir voru á ferð með fjölskyldu eða vinum. Spurðir um hvar þeir hefðu frétt af sýningunum höfðu flestir orðið varir við ábendingar um þær á leið um Sauðárkrók en nær jafnmargir höfðu frétt af þeim hjá vinum og kunningjum.
Þegar kom að því að gefa upplifuninni einkunnir lýstu flestir sig ánægða með aðgengi, móttöku og upplýsingar. Safnheimsóknin fékk 8,5 í heildareinkunn af 10 mögulegum, frá þeim 20 gestum sem gáfu þeim atkvæði, þegar spurt var um hvort sýningarnar væru barnvænar fengu þær 7,8 sem segir að eitthvað megi laga í því efni. Sýningarnar fengu 8,4 fyrir möguleikann til að læra eitthvað nýtt, sem gott fræðsluefni og fyrir innihald og uppsetningar, en fyrir gagnvirkni fengu þær falleinkunnir hjá þeim 13 sem svöruðu þeirri spurningu. Þótt þátttakan hafi ekki verið mikil þá má vel sjá ýmis skilaboð í könnuninni sem starfsfólk safnsins mun nýta sér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.