3. september, voru 65 nemendur brautskráðir frá Háskólanum á Hólum, við hátíðlega athöfn í Hóladómkirkju. Rektor, Skúli Skúlason, ávarpaði nemendur, starfsmenn og aðra gesti, sem hann bauð að vanda velkomna heim í Hóla. Að ræðu rektors lokinni tóku deildarstjórarnir Kristina Tryselius, Bjarni Kristófer Kristjánsson og Víkingur Gunnarsson við, fluttu stuttar tölur og afhentu síðan prófskírteinin, hvert í sinni deild. Jón Þorsteinn Reynisson spilaði á harmoniku á milli atriða.
Því miður voru allmargir þessara 65 nemenda fjarverandi, enda brautskráningin við óvenjulegar aðstæður, sem sköpuðust af hestapestinni.
Brautskráðir skiptust svo, á milli deilda og brauta:
Frá ferðamáladeild útskrifuðust þrír nemendur með diplómu í viðburðastjórnun, og sjö með diplómu í ferðamálafræðum. Sérstaka viðurkenningu fyrir besta námsárangur hlutu þau Guðfinna Sif Helgadóttir, fyrir viðburðastjórnun, og Helgi Þorsteinsson, fyrir ferðamálafræði.
Úr fiskeldis- og fiskalíffræðideild útskrifaðist einn nemandi, með diplómu í fiskeldisfræðum.
Úr hestafræðideild útskrifuðust samtals 54 nemendur. Ýmsar viðurkenningar voru veittar við athöfnina, venju samkvæmt.
Alls útskrifuðust 27 sem hestafræðingar og leiðbeinendur. Anna-Lena Aldenhof hlaut viðurkenningar fyrir hæstu meðaleinkunn og fyrir hæstu einkunn í kennslufræði á leiðbeinendastigi. Auk þess hlaut hún Eiðfaxabikarinn. Sina Scholz fékk reiðmennskuverðlaun FT og Morgunblaðsskeifuna, sem er veitt fyrir besta samanlagðan árangur í reiðmennsku.
19 brautskráðust með diplómu í tamningum. Sylvíu Sigurbjörnsdóttur var veittur tamningabikar FT, fyrir hæstu meðaleinkunn.
Það voru sjö, sem útskrifuðust sem þjálfarar og reiðkennarar. Samkvæmt hefðinni færði formaður FT, Sigrún Ólafsdóttir, þá í einkennisjakka félagsins við útskriftarathöfnina, en því miður voru einungis tveir þeirra viðstaddir. Sigvaldi Lárus Guðmundsson hlaut bæði Morgunblaðshnakkinn, fyrir hæstu meðal einkunn, og LH-styttuna, fyrir besta árangur í kennslufræði og reiðkennslu. Laura Benson vann til Ástundarhestsins, sem er veittur fyrir hæstu meðaleinkunn fyrir reiðmennsku.
Að lokum útskrifaðist einn nemi með BS-gráðu í hestafræðum, en sú braut er sameiginlegt verkefni Háskólans á Hólum og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
Kaffisamsæti var í húsnæði skólans, að athöfn lokinni. |
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.