Á náttföt, alls konar peysur og kjól

hafdís Hrönn, Hneta og Ásdís Pála, allar í náttfötum. MYNDIR: AÐSENDAR
hafdís Hrönn, Hneta og Ásdís Pála, allar í náttfötum. MYNDIR: AÐSENDAR

Í Raftahlíðinni á Króknum býr Hafdís Hrönn Bjarkadóttir níu ára stelpuskott, ásamt móður sinni, Stefaníu Ósk, föður, Bjarka Þór, og yngri systur, Ásdísi Pálu. Hafdís Hrönn er svo heppin að eiga litla hvíta Miniture schnauzer eða dvergschnauzer tík sem heitir Hneta.

Dvergschnauzer (miniature schnauzer) eru minnstir af schnauzertegundunum og eru þeir með kassalaga byggingu. Þá er hægt að fá í fjórum litaafbrigðum, alveg svartur, pipar og salt, svartur/silfraður og hvítur. Dvergschnauzer er mjög greindur, óttalaus, þrekmikill og árvökull sem gerir hann að þægilegum heimilishundi sem og varðhundi. Schnauzerinn er líka góður félagi og mjög hæfur til að búa í litlu húsnæði án vandræða. Dvergschnauzer er þolinn og kröftugur hundur sem er almennt mjög heilsuhraustur og þolir vel alls konar veðráttu. Hann hefur gott úthald og getur fylgt eiganda sínum í langar göngur en getur líka, án vandræða, verið eiganda sínum góður félagsskapur í rólegheitum á golfvellinum eða heima í stofu.

Dvergschnauzer er í góðu andlegu jafnvægi og er ekki feiminn, taugaveiklaður eða árásargjarn. Sumir eru varir um sig gagnvart ókunnugum, sem er ekki galli heldur ákveðinn sjarmi. Það má rekja til gamalla karaktereinkenna sem liggur í tegundinni og hefur ekkert með taugaveiklun að gera. Margir Dvergschnazerar tala og koma þá hljóð sem eru allt frá dimmu urr hljóði til hærri gleði hljóðs og huggulegs kurr. Dvergschnauzer notar þessi hljóð til að  reyna að fá það sem hann langar í. Greind, kátína og leikgleði ásamt miklum samstarfsvilja gerir hann einstaklega góðan til þjálfunar í hlýðni og hundafimi. Þessi fjölskylduvæna tegund getur lifað nánast hvar sem er, svo lengi sem þú ert þar!

Hvernig eignaðist þú Hnetu? -Mamma ákvað að fara til Reykjavíkur og kom heim með Hnetu, við Ásdís vissum ekki neitt. Ég var svo glöð að ég fór að gráta. Okkur var búið að langa í hund síðan við misstum Freyju en hún var Cavalier tík. Þegar Hneta var þriggja ára var hún í heimilisleit og þá kom hún til okkar, hún smellpassaði svo inn í fjölskylduna. Litla systir mín er nefnilega með ofnæmi fyrir öllum dýrum sem fara úr hárum en það góða við Hnetu er að hún fer ekkert úr hárum.

Hvað er skemmtilegast við Hnetu? -Að leika við hana í garðinum og æsa hana upp. Sérstaklega gaman á sumrin. Mér finnst mjög gaman að baða hana og gera hana fína. Stundum set ég hana í föt og á hún t.d. náttföt, alls konar peysur og einn kjól. Eitt sem er mjög skemmtilegt er að Hneta kann ýmiss trix eins og að syngja. Ef við biðjum hana um að syngja þá byrjar hún að spangóla.

Hvað er erfiðast? -Að fara með hana út að labba, hún á það til að gelta á fugla og þá hlíðir hún mér ekki alltaf þegar ég bið hana að hætta.

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af gæludýrinu? -Við erum búin að eiga Hnetu í fjögur ár núna sem er frekar stuttur tími en á þessum tíma hefur mikið gerst hjá okkur. Hneta er núna sjö ára og hefur tvisvar sinnum átt hvolpa hjá okkur. Í fyrsta gotinu voru fjórar tíkur og svo í seinna gotinu komu fimm rakkar og ein tík. Hneta hefur sem sagt eignast tíu hvolpa, fimm tíkur og fimm rakka. Það var svo ótrúlega gaman þegar hún eignaðist hvolpana og það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Hún er svo ljúf og góð að hún leyfði okkur Ásdísi að vera með hvolpana sína strax, og þeir voru mjög litlir og sætir. Það er rosalega gaman að vera með hvolpa, við þurftum að hjálpa Hnetu með ýmislegt t.d. að kenna þeim að borða mat, labba og leika sér. Það sem var skrítið við að vera með hvolpa er það að þeir pissa og kúka út um allt og Hneta borðaði það. Líka þegar þeir fæðast þá borðaði hún naflastrenginn og allt sem kemur út með þeim það er mjög skrítið. Mig langar rosalega mikið til að hún eignist fleiri hvolpa og vera með þeim alltaf en því miður þá er Hneta orðin of gömul til að eiga fleiri hvolpa og það sorglega við þetta allt er að allir hvolparnir hennar þurftu að flytja frá okkur og fá ný heimili.

Feykir þakkar Hafdísi Hrönn fyrir að svara þættinum Ég og gæludýrið :)

     

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir