Á tímamótum

Nú er fjögurra ára kjörtímabili að ljúka og þar með hef ég ákveðið segja staðar numið við sveitarstjórnarstörf fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð. Það voru blendnar tilfinningar við þá ákvörðun að segja skilið við þennan starfsvettvang, því kynni mín af samstarfsfólki jafnt í sveitarstjórn og í almennum störfum hjá sveitarfélaginu hafa verið afar ánægjuleg og gefandi. Það var ekki fyrir að ég nyti ekki stuðnings að ég ákvað að stíga til hliðar, það var alfarið mín ákvörðun, þrátt fyrir að hljóta afgerandi kosningu í skoðanakönnun sem gerð var innan flokksins.

Ég var á líðandi kjörtímabili forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stjórnarmaður hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Náttúrustofu Norðurlands vestra ásamt því að sitja í ýmsum nefndum og ráðum. Nú tek ég heiðurssæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði eftir margra ára þátttöku í sveitarstjórnarmálum. Ég tef tekið sæti á lista flokksins frá því árið 2002. Sat í fræðslunefnd frá árinu 2005-2014 og í sveitarstjórn síðustu 8 ár. Það er gott að hætta þegar vel gengur og samstarf við alla hefur gengið vel, en betur má ef duga skal. Það er alltaf þannig að maður hefði viljað gera meira og alltaf er hægt að gera betur.

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum haft það að leiðarljósi í okkar störfum að pólitískar línur eiga ekki að ráða við ákvarðanatökur, heldur hagsmunir sveitarfélagsins og þar með íbúanna í okkar samfélagi. Í sveitarstjórnarpólitík þarf á samvinnu að halda og þarf sveitarstjórn að starfa sem liðsheild og sjá til þess að allar góðar hugmyndir hljóti brautargengi. Ég tel að sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafi undantekningarlítið starfað eftir þeim markmiðum á þessu kjörtímabili og það ber að þakka.

Það er margt sem hefur verið gert á liðnu kjörtímabili og eru ýmsar framkvæmdir í fullum gangi nú þegar, aðrar búnar og enn aðrar á teikniborðum og í öðrum farvegi. Sjálfstæðismenn hafa sem betur fer náð að framfylgja flestum þeim loforðum sem gefin voru fyrir 4 árum. Stærsta málið hjá okkur var Sundlaug Sauðárkróks og er það verk í fullum gangi.

Stærstu verkefni nýrrar sveitarstjórnar verða þó að öllum líkindum atvinnumálin, rétt eins og síðustu sveitarstjórnar. Fjölgun starfa er eitt af brýnustu verkefnum á næstu árum til þess að auka hagsæld og gera góða þjónustu enn betri fyrir íbúa sveitarfélagsins. Sveitarstjórn þarf að vera leiðandi afl og sjá um kynningar á möguleikum héraðsins og jafnframt að vera tengiliður við stjórnvöld landsins fyrir þá aðila sem á þurfa að halda. Verkefni nýrrar sveitarstjórnar eru ótalmörg og hafa frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins unnið stefnuskrá fyrir komandi kosningar, þar sem áhersluverkefni koma fram.

Þeir frambjóðendur sem skipa lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar hafa breiða reynslu og þekkingu á öllum þeim sviðum sem verða á verkefnalista næstu sveitarstjórnar. Því hvet ég kjósendur til að veita þeim gott brautargengi á kjördag. Jafnframt vil ég þakka þann stuðning, sem ég hef notið í störfum mínum á vettvangi sveitarstjórnar á þessu kjörtímabili. Ég vil að lokum óska öllu því ágæta fólki sem mun ná kjöri í næstu sveitarstjórn velfarnaðar í sínum störfum.

Sigríður Svavarsdóttir

forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir