Á tjá og tundri frumsýnt fyrir fullum sal

Nemendafélag Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra fumsýndi fyrir fullum sal leikverkið Á tjá og tundri eftir Gunnar Helgason í Bifröst á Sauðárkróki síðastliðið fimmtudagskvöld. „Krakkarnir voru í skýjunum og skemmtu sér sjálf stórkostlega, það er svo gaman að leika fyrir góðan sal!“ segir Jóndís Inga Hinriksdóttir skemmtanastjóri NFNV um frumsýninguna. 

Á tjá og tundri fjallar um Hans og Nínu sem eru ungt par sem er að fara að gifta sig. Í miðri athöfn kemur babb í bátinn sem verður til þess að allt splundrast upp og allir halda í veisluna, en brúðhjónin ekki gift ennþá. Þar fer ýmislegt fram og reynslusögur sagðar, viðeigandi og óviðeigandi. Allir fara að opna sig og margur óþægilegur sannleikur leiddur í ljós. Eiga atvik úr fortíðinni að hafa áhrif á framtíðina? Eiga brúðhjónin meira sameiginlegt en þau héldu? Stóra spurningin er hvort það er ástin sem sigrar að lokum. Persónurnar eru allar skemmtilegar á sinn ólíka hátt. Lögin í leikritinu eru bæði íslensk og erlend en öll fyrsta flokks.Leikstjóri er Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson.

„Frumsýningin gekk mjög vel, það var uppselt á hana og salurinn var góður. Allir lögðu sig alla fram og það skein alveg í gegn. Það er svo önnur sýning í kvöld,“ segir Jóndís Inga.

Sýningarplanið er eftirfarandi:

  • laugardaginn 15. nóv. kl. 20
  • sunnudaginn 16. nóv. kl. 17
  • þriðjudaginn 18. nóv. kl. 20
  • miðvikudaginn 19. nóv. kl. 20
  • Lokasýning – föstudaginn 21. nóv. kl. 20

Hægt er að panta miða í síma 455-8070 alla sýningardaga á milli klukkan 16:00 og 18:00. Miðaverð er 1000 kr. fyrir meðlimi NFNV og yngri en 16 ára og 1500 kr. fyrir aðra.

Að neðan er myndasyrpa frá því þegar Feykir leit inn á æfingu.

 

Fleiri fréttir