Að meta árangur - Áskorandinn Sigríður Gunnarsdóttir Sauðárkróki

Einu sinni fyrir nokkuð löngu hitti ég Jón Hjörleifsson, vin minn út í búð. Við tókum tal saman um daginn og veginn. Hann spurði mig alvarlegur í bragði: „Hefur þér tekist að kristna einhverja í dag?“ Eftir stutta umhugsun varð ég að viðurkenna að líklega hefði ég engan kristnað þann daginn. Þetta fannst okkur báðum fyndið, hlógum að slælegri frammistöðu og kvöddumst svo.

Ég og Nonni erum gamlir sveitungar. Við eigum sama afmælisdag og framan af hélt ég því víst fram að við værum jafn gömul. Þann misskilninginn tókst að leiðrétta. Oft hef ég leitt hugann að þessari spurningu þó henni væri varpað fram í hálfkæringi. Í rauninni er það einmitt þetta sem ætlast er til af prestum að þeir leiði fólk til trúar eða kristni fólk. Rétt eins og smiður smíðar hús, bílstjóri ekur bíl, kennari kennir og svo framvegis. En hvernig get ég vitað hvort að mér tekst að kristna einhverja og  hvenær kristna ég nógu marga?

Í vetur hef ég verið frá störfum eins og margir Króksarar hafa tekið eftir. Ég ákvað að venda mínu kvæði í kross, sótti um námsleyfi og las stjórnunarfræði við Háskólann á Bifröst. Stjórnunarnám er mjög í tísku enda bendir margt til að framgangur fyrirtækja standi og falli með hæfni og getu stjórnenda. Stjórnun er kennd í viðskiptafræðideild og þar var margt framandi fyrir guðfræðinginn. Í mjög einfölduðu máli miðar námið að því að kenna fólki að setja markmiðið í rekstri fyrirtækja og stofnana og hafa sýn til framtíðar, það sé lykill að árangri. Mikilvægt er að mæla árangurinn reglulega og þegar einu markmiði er náð (eða ekki), að setja sér annað.

Í námsleyfinu hef ég kynnst nýjum hugmyndum og mögnuðu fólki úr ýmsum geirum atvinnulífsins. Það var hressandi að skipta um viðfangsefni um stund, víkka sjóndeildarhringinn og takast á við ný verkefni. En best finnst mér samt að ég hlakka til að koma aftur til vinnu og þjóna í kirkjunni. Ef ég reyni að nýta mér námið í starfi er rökrétt að ég setji mér markmið, t.d eins og að kristna einhverjar sálir, helst á hverjum degi. Vandast málið þegar kemur að því að finna hvaða aðferð er heppilegust til að mæla árangurinn.

Ég skora á æskuvinkonu mína Hrefnu Jóhannesdóttur á Silfrastöðum, skógarbónda og hreppsnefndarkonu að taka við pennanum.

Áður birst í 22. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir