„Áfram og upp!“ segir Unnur Valborg

Unnur Valborg. MYND: HUNAÞING VESTRA
Unnur Valborg. MYND: HUNAÞING VESTRA

„Ég er óskaplega stolt af þessum árangri liðsins og er nokkuð viss um hann er eitt af mestu afrekum í íþróttasögu Húnvetninga. Þessi félagsskapur sem heldur utan um liðið er rekinn áfram af leikgleði og alltaf er stutt í léttleikann. Það ásamt góðum þjálfurum og topp leikmönnum er í dag að skila þessum frábæra árangri,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, þegar Feykir innti hana eftir því hvort það afreka liðs Kormáks/Hvatar, að tryggja sér sæti í 2. deild, væri stærsta íþróttaafrek húnvetnskrar íþróttasögu.

Hefurðu fylgst með gengi liðs Kormáks/Hvatar í sumar – hefurðu áhuga á fótbolta? „Það eru til meiri áhugamenn um fótbolta en ég er en ég fylgist auðvitað með gengi okkar manna líkt og öðru því sem efst er á baugi í sveitarfélaginu hverju sinni.“

Hvaða áhrif heldurðu að þessi velgengni hafi á samfélagið? „Allir sigrar sem þessir hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Það er ekki nokkur spurning. Og ekki bara okkar samfélög heldur önnur sambærileg annars staðar á landinu.“

Áttu einhvern uppáhalds leikmann í liðinu? „Þetta er ósanngjörn spurning,“ svarar Unnur Valborg hlæjandi. „Svona árangur næst ekki nema með góðri liðsheild og mikilli samvinnu. Það er liðsheildin sem nær þessum frábæra árangri.“

Standa Húnvetningar sameinaðir að baki sameinuðu liði Kormáks og Hvatar og eru fótboltamálin rædd á kaffistofunni? „Það er klárt mál að Húnvetningar standa sameinaðir að baki liðinu. Eðlilega er fótboltinn ræddur á kaffistofum sveitarfélagsins – sérstaklega þegar vel gengur eins og núna,“ segir sveitarstjórinn og bætir við: „Til hamingju með þennan frábæra árangur. Ég hlakka til að fylgjast með ykkur í 2. deildinni að ári. Áfram og upp!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir