Áfram verður þrýst á um frekari aðgerðir vegna mengunartjónsins á Hofsósi

Loftmynd af því svæði sem olíumengunin átti sér stað á Hofsósi. Mynd: Google Map.
Loftmynd af því svæði sem olíumengunin átti sér stað á Hofsósi. Mynd: Google Map.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, segir það valda vonbrigðum að Umhverfisstofnun virðist lítið tillit taka til þeirra athugasemda sem sveitarfélagið hafi sent inn við drögum að tillögu að fyrirmælum um úrbætur vegna umhverfistjóns af völdum bensínmengunar úr olíutanki N1 við Suðurbraut á Hofsósi. „Ég vona auðvitað að aðgerðirnar beri árangur en við hefðum talið að hægt hefði verið að ganga lengra í þessum fyrirmælum,“ segir Sigfús.

„Sveitarfélagið hefur haldið því fram að markmiðið með hreinsunaraðgerðunum eigi auðvitað að vera að hreinsa hið mengaða svæði í heild sinni. Hreinsun í litlum áföngum getur leitt til langvarandi rasks á svæðinu. Því krafðist sveitarfélagið þess m.a. að N1 skyldi fjarlægja allan mengaðan jarðveg og meðhöndla hann á viðeigandi hátt þar sem aðstæður eru góðar, svo sem bent var á af hálfu ráðgjafa okkar frá verkfræðistofunni Eflu.“

Sigfús bendir á að sveitarfélögin í landinu hafi ekki formlegt stjórnsýslulegt hlutverk í viðbrögðum vegna mengunartjóna sem þessara. Bensínstöðvar séu starfsleyfisskyldar hjá heilbrigðisnefndum og falla undir mengunareftirlit þeirra.

„Sveitarfélagið benti hins vegar Umhverfisstofnun á að rekstraraðila stöðvarinnar hefði borið að tilkynna mengunartjónið einnig til stofnunarinnar með þeim hætti sem lög kveða á um. Í kjölfarið ákvað Umhverfisstofnun eftir talsverða eftirgangsmuni af hálfu sveitarfélagsins að nýta þær lagaheimildir sem stofnunin hefur til að hafa frekari afskipti af málinu enda telur hún að um umtalsvert umhverfistjón sé að ræða í skilningi laga um umhverfisábyrgð. Síðan þá hefur Umhverfisstofnun haft málið til meðferðar og nú gefið út fyrirmæli um úrbætur.“

Að sögn sveitarstjórans hefur Sveitarfélagið Skagafjörður ríkra hagsmuna að gæta í málinu sem eigandi lóða og veitumannvirkja í nágrenni bensínstöðvar N1 á Hofsósi. Af þeim sökum, segir Sigfús, hefur sveitarfélagið fylgt þessu máli fast eftir gagnvart N1 og Umhverfisstofnun og m.a. látið verkfræðistofuna Eflu vinna fyrir sig ýmsar rannsóknir og greiningar til að styðja betur við þau rök að ganga þurfi harðar og hraðar fram í hreinsunaraðgerðum en þegar hefur verið gert. „Þetta telur Sveitarfélagið sig geta gert án þess að stíga inn í hlutverk Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlitsins. Fyrst og fremst er það þó hlutverk rekstraraðilans að láta vinna slíkar rannsóknir og hreinsa upp eftir sig.“

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur legið undir ámælum um að hafa dregið lappirnar í þessu máli? Hver eru viðbrögð þín við þeim?
„Allar niðurstöður rannsókna, mælinga og athugana sem unnar hafa verið á vegum Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafa verið sendar til Umhverfisstofnunar til að reyna að sýna fram á umfang mengunarinnar og knýja á að meiri kraftur verði settur í hreinsunaraðgerðir. Sveitarfélagið hefur einnig átt allmarga fundi með heilbrigðiseftirlitinu, N1 og Umhverfisstofnun til að fylgja málum eftir og m.a. notið ráðgjafar lögfræðings í þeim efnum. Þá var sveitarfélagið eitt um að senda athugsemdir við fyrrgreind drög að tillögu að fyrirmælum og gera kröfur um frekari fyrirmæli um úrbætur en tillögur N1 gerðu í upphafi ráð fyrir. Það er því ekki rétt að sveitarfélagið hafi dregið lappirnar í þessu máli. Sveitarfélagið mun áfram þrýsta á um frekari aðgerðir vegna mengunartjónsins,“ segir Sigfús Ingi að lokum.

Tengd frétt: UST gefur út fyrirmæli um úrbætur vegna umhverfistjóns á Hofsósi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir