UST gefur út fyrirmæli um úrbætur vegna umhverfistjóns á Hofsósi

Frá Hofsósi. Mynd af forsíðu Tillagna að úrbótaátlun Verkíss.
Frá Hofsósi. Mynd af forsíðu Tillagna að úrbótaátlun Verkíss.

Umhverfisstofnun hefur lagt fram fyrirmæli um úrbætur umhverfistjóns vegna bensínmengunar frá eldsneytistanki N1 ehf. á Hofsósi. Eru þau unnin af stofnuninni og byggja á tillögum sem settar voru fram sem  úrbótaáætlun sem verkfræðistofan Verkís hf. vann fyrir hönd N1 ehf.

Á heimasíðu UST segir að mengunin sé rakin til leka frá niðurgröfnum bensíngeymi við afgreiðslustöð N1 ehf. á Hofsósi en markmiðið með fyrirmælunum sé að ramma inn þær kröfur sem Umhverfisstofnun gerir á hendur N1 ehf. varðandi hreinsun vegna bensínmengunarinnar og að þau hús sem orðið hafa fyrir áhrifum mengunarinnar (að Suðurbraut 6, 8, 9 og 10) verði sem fyrst íbúðarhæf og að styrkur mengunar í þeim valdi ekki heilsuspillandi áhrifum.

Samkvæmt áætlun UST skal hefja gröft á skurðum og niðursetningu loftunarröra í samræmi við tillögur í úrbótaáætlun innan tveggja vikna frá útgáfu fyrirmælanna, sem var í gær, þessara, að því gefnu að framkvæmdaleyfi sveitarfélags liggi fyrir framkvæmdinni.

Skurðirnir eru hugsaðir með loftunarrörum með virku sogi en að auki fer Umhverfisstofnun fram á að við útblástur röranna verði kolasíu komið fyrir, í þeim tilgangi að minnka þá lykt sem annars bærist út í andrúmsloftið. Kolasíu verði jafnframt komið fyrir á þeim loftunarrörum sem fyrir eru á svæðinu svo sem undan húsum og þar sem tankarnir stóðu áður.

„Staðsetning gryfjanna skal vera fyrir framan og aftan húsin að Suðurbraut 6, 8 og 10 og, ef framkvæmanlegt er, á milli þeirra, í samræmi við úrbótaáætlunina. Lengd gryfjanna skal ákvarðast í samráði við Umhverfisstofnun, með hliðsjón af niðurstöðu PID1 sýnatöku sem fara mun fram við gröft skurðanna. Lengd loftunarröranna skal ákvarðast í samráði við eftirlitsmann Umhverfisstofnunar, áður en skurðunum verður lokað,“ segir í fyrirmælunum en jafnframt kemur fram að ábyrgðin liggi hjá rekstraraðila, N1 ehf. sem bæta skuli úr umhverfistjóni á landi með því að eyða mengun og endurheimta fyrra ástand eða gera jafngildar ráðstafanir.

„Rekstraraðili skal skv. 21. gr. bera kostnað við rannsóknir, varnarráðstafanir og úrbætur sem framkvæma ber samkvæmt lögum nr. 55/2012. Einnig skal hann bera kostnað stjórnvalda vegna aðgerða sem þeim er samkvæmt lögum falið að grípa til og falla undir lögin, m.a. vegna bráðamengunar eða mengunaróhapps. Umhverfisstofnun getur endurkrafið rekstraraðila um kostnað vegna slíkra aðgerða. Gjald fyrir eftirlit, vöktun og málsmeðferð skv. II. og VI. kafla laganna verður innheimt í samræmi við gjaldskrá Umhverfisstofnunar,“ segir í fyrirmælum UST.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir