Ágætu Skagfirðingar, senn líður að sveitarstjórnarkosningum

Síðastliðinn fimmtudag mætti ég, líkt og margir sveitungar, á framboðsfund í Miðgarði þar sem glæstur hópur yngri og eldri frambjóðenda kynntu stefnumál sín og svöruðu fyrirspurnum úr sal. Mikið var fjallað um leikskólamál, eflingu tónlistarskólans og skólamál almennt sem er auðvitað nauðsynlegt og ágætt. Ég undraðist þó að ekkert var fjallað um uppbyggingu eða styrkingu atvinnulífsins og eflingu stærstu atvinnugreinar landsins, ferðaþjónustunnar.

Fyrir örfáum árum styrkti sveitarfélagið með umtalsverðum fjármunum uppbyggingu einkaaðila á sýndarveruleikasetri á Sauðárkróki í þeim tilgangi að skapa aðdráttarafl fyrir ferðamenn í Skagafjörð. Aðkoma sveitarfélagsins var vissulega umdeild og ósanngjörn gagnvart ýmsum í ferðaþjónustunni en þakka ber það sem gert er.

Í áratugi hef ég hins vegar undrast fálæti og skilningsleysi sveitarstjórna á öðrum sviðum, það er að segja, aðdráttarafli og náttúrulegri sérstöðu Austari- og Vestari-Jökulsánna. Í stað þess að efla og auglýsa af fullum krafti flúðasiglingarnar finnst mér ferðamála- og atvinnuyfirvöld í héraðinu afar sagnafá um þessar náttúruperlur héraðsins og sérstöðu Jökulsánna í Skagafirði. Þær eru ekki aðeins í sérflokki á landsvísu heldur einnig á heimsvísu. Það er löngu kominn tími til að Skagfirðingar átti sig á hvað þeir hafa í höndunum.

Mig langar að rifja aðeins upp þróun og uppbygginu flúðasiglinganna og hversu gríðarlega sterkt aðdráttarafl árnar og starfsemin í kringum þær hafa skapað.
Ungur fékk ég brennandi áhuga á ferðaþjónustu og árið 1985 gekk ég til liðs við þá feðga Svein og Björn á Varmalæk. Sveinn var frumkvöðull á mörgum sviðum og hóf hestaferðaþjónustu árið 1974 á Varmalæk. Upp úr samstarfi okkar varð Hestasport til. Hestaferðir og öll hestamennskan á Íslandi er afar mikilvægur þáttur í ferðaþjónustunni á landsvísu og oft er sagt að hesturinn sé okkar langbesti sendiherra. Hestaferðir Hestasports voru vissulega mjög vinsælar en samkeppnin harðnaði og fjarlægðin frá Reykjavík skekkti samkeppnisaðstöðuna, því varð okkur fljótt ljóst að náttúrufarsleg sérstaða er mikilvæg forsenda til að ná árangri í ferðaþjónustu.

Upp úr 1990 leituðum við logandi ljósi að einhverju sérstæðu í nærumhverfinu og árið 1992 fengum við fagfólk til að prufusigla Austari- og Vestari-Jökulsárnar í fyrsta skipti. Niðurstaðan varð mjög jákvæð og 1994 voru fyrstu sætin seld í árnar. Til að hámarka möguleika siglinganna og tryggja öryggi starfseminnar var fljótlega ákveðið að ráða til landsins mjög hæft og reynslumikið flúðasiglingafólk frá Nepal og fleiri löndum. Lykillinn að leyndarmáli ánna kom með þekkingu þessa fólks. Velvilji landeiganda við árnar var einnig mjög mikilvægur við að byggja upp og þróa starfsemina áfram.

Ég fullyrði að flúðasiglingarnar var aðdráttaraflið sem gerði okkur kleyft að þróa afar skemmtilega og spennandi dagskrá fyrir einstaklinga og alls kyns hópa, m.a. útskriftarferðir 10. bekkja grunnskóla landsins sem hafa heimsótt Skagafjörð í þúsundatali síðustu 28 árin. 

Ótal fleiri dæmi gæti ég nefnt sem undirstrika rækilega aðdráttarafl Jökulsánna, t.d. heimsókn hljómsveitarinnar Rammstein árið 2001, heilsíðugrein í The New York Times árið 2005 og í framhaldinu heimsókn Arthurs Sulzberger eigenda The New York Times og nokkurra vina hans og 3ja daga raftsiglingu þeirra frá Laugarfelli niður að Villinganesi. Auk þessa var starfsemin á jökulsánum meðal annars ein af forsendum þess að Chad Pike og félagar ákváðu að byggja upp „ævintýraveröldina“ á Deplum í Fljótum.

Árið 2010 seldum við hjá Hestasporti flúðasiglingarnar þar sem þrengsli í Varmahlíð og umfang starfseminnar var orðið íþyngjandi, enda gestafjöldinn í árnar um 6500 manns á ári. Fyrrum starfsmenn okkar með Anup Gurung í broddi fylkingar eiga nú og reka flúðasiglingafyrirtækið Viking Rafting á Hafgrímsstöðum og þangað sækja m.a. stórstjörnur eins og Ben Stiller, Ólafur Darri Ólafsson og Lance Stroll Formula 1 driver svo einhverjir séu nefndir. Einnig eru þar þjálfunarbúðir í straumvatnssiglingum- og björgun fyrir Keili (Adventure Study University) og Landsbjörgu.

Nú eru tvö flúðasiglingafyrirtæki starfrækt í Skagafirði og ætla má að starfsmannafjöldinn sé samtals á milli 20 og 30 manns með óskilgreindum fjölda afleiddra starfa og tekna inn í héraðið. Þúsundir gesta leggja leið sína í Skagafjörð sérstaklega til þess að upplifa fjörið og ekki síður náttúrufegurðina sem jökulsárgljúfrin hafa upp á að bjóða. Skiptir þetta Skagfirðinga engu máli?

Ég hvet núverandi sveitarstjórn, frambjóðendur til sveitarstjórnarkosninga og Skagfirðinga alla að veita nágrenni sínu athygli og áhuga, styðja við og efla þá starfsemi sem fyrir er og styrkja enn frekari atvinnustarfsemi og nýsköpun á svæðinu með sjálfbærnisjónarmið að leiðarljósi.

Stöndum vörð um náttúruperlurnar sem komu í okkar hlut að vernda fyrir komandi kynslóðir. Jökulsárnar eru dýrmætir hlekkir í heildarmynd svæðisins og mikilvægt að koma þeim í verndarflokk Rammaáætlunar. Í mínum huga felast í ferðaþjónustu mikil tækifæri fyrir landsbyggðarfólk til atvinnusköpunar og tekjuöflunar. Ferðaþjónustan teygir anga sína út í alla kima samfélagsins.

Auðvitað verða landsyfirvöld að átta sig á því að í ferðaþjónustunni fara hagsmunir allra „eyjarskeggja“ saman og samkeppnisaðstaðan verður að vera sanngjörn. Beint millilandaflug Niceaier á Akureyri er mikilvægt skref í þessa átt og hvet ég alla Norðlendinga til að nýta sætaframboðið til og frá Akureyri sem allra mest.

Magnús Sigmundsson
Höfundur er framkvæmdastjóri og eigandi Hestasports í Varmahlíð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir