Áhrif þyngdar knapa á íslenska hestinn
Vikuna 2. - 6. júní var sett upp rannsókn á Hólum til að mæla áhrif af mismiklum knapaþunga á hjartslátt hesta, mjólkursýrumyndun í blóði og hreyfingar á tölti. Á heimasíðu Hólaskóla segir að notaðir voru níu fullorðnir reiðhestar (fimm geldingar og fjórar hryssur) og einn knapi og síðan bætt við viðbótarþunga (blýi í hnakkinn, undirdýnu, þungum ístöðum og vesti á knapa) til að fá áhrifin af mismunandi knapaþunga.
Aðeins einn knapi var notaður til að koma í veg fyrir áhrif af mismunandi reiðlagi ólíkra knapa. Hlutfall þunga knapa af þunga hests var reiknað og prófuð voru hlutföllin 20%, 25%, 30% og 35%. Meðalþungi hestanna var 366 kg og meðalþungi knapa, reiðtygja og viðbótarþunga var 73, 91, 110 og 128 kg fyrir þau hlutföll sem voru prófuð.
„Hestarnir voru settir í sama þjálfunarpróf með öll þungahlutföllin en þeim var riðið 600 m á tölti á hringvelli, á hraðanum um 5 m/s með hvern þunga (ca. 2 mín). Hjartsláttur var mældur allan tímann og blóðsýni tekið eftir hvert þjálfunarpróf. Auk þess voru hestarnir með nema til að mæla hreyfingarmynstrið á töltinu og öll þjálfunarprófin voru tekin upp á myndband. Líkamlegt heilbrigði hestanna var metið fyrir rannsóknina og í tvo daga eftir hana. Áður en rannsóknin hófst fékkst leyfi fyrir henni hjá tilraunadýranefnd,“ segir um framkvæmd rannsóknarinnar.
Rannsóknin er hluti af doktorsnámi Guðrúnar Stefánsdóttur í þjálfunarlífeðlisfræði íslenskra hesta en gögnin úr hreyfingarfræðihlutanum mun Víkingur Gunnarsson nýta í sínu endurmenntunarnámi, en hann mun verða í endurmenntunarleyfi í Uppsala í Svíþjóð frá ágúst 2014 til júní 2015. Tveir sérfræðingar komu frá sænska landbúnaðarháskólanum í Svíþjóð til að leiðbeina við og taka þátt í rannsókninni, þau Anna Jansson og Lars Roepstorff.
Myndir og meiri upplýsingar má sjá á heimasíðu Hólaskóla.