Aldan með orlofshús á Spáni

Á heimasíðu stéttarfélaganna í Skagafirði segir frá því að orlofssjóðir Öldunnar, Vlf. Snæfellsness, Vls. Sandgerðis og Verk Vest hafa ákveðið að hefja samstarf um rekstur á orlofsíbúð á Spáni. Hafa félögin fest kaup á raðhúsi nr. 13 sem er á jarðhæð í raðhúsahverfinu Altomar III í Los Arenelas og hefur húsið fengið nafnið „Vinaminni“.

Íbúðin er í lokuðum kjarna þar sem enginn kemst inn nema hafa lykil eða aðgangsheimild. Hún er vel búin öllum helstu þægindum með loftkælingu og mjög gott aðgengi er að íbúðinni. Gistipláss er fyrir sex fullorðna í tveimur herbergjum og svefnsófa í stofu og einnig fylgir ferðabarnarúm.

Raðhúsakjarninn er mjög snyrtilegur en fyrir miðju kjarnans er sameiginleg sundlaug með barnalaug sem aðeins íbúarnir hafa aðgang að. Við hliðina á sundlauginni er stigahús niður í bílastæðakjallarann. Stæði í bílageymslu fylgir íbúðinni.

Nánari upplýsingar um íbúðina og útleigu á henni eru á vef stéttarfélaganna.

Fleiri fréttir