Aldrei að gefast upp
Tindastóll fékk lið Selfoss í heimsókn í gærkvöldi. Bæði lið þurftu á stigum að halda til að laga stöðu sína í botnbaráttu 1. deildar. Liðin skiptust á jafnan hlut en lengi vel leit út fyrir að gestirnir færu með öll stigin því Stólunum tókst ekki að jafna metin fyrr en í þann mund sem dómarinn ætlaði að flauta til leiksloka. Lokatölur 1-1.
Leikur liðanna var ekki sérstök skemmtun í myrkrinu og vætunni á Króknum í gærkvöldi. Veður var þó stillt en hvorugt liðið tilbúið að taka mikla áhættu. Selfyssingar, vel studdir af vel mjúkum stuðningsmannahópi sínum, fengu dauðafæri snemma leiks en leikmanni þeirra tókst að setja boltann í þverslá Stólanna þegar auðveldara virtist að skora. Tindastólsmenn náðu undirtökunum upp úr miðjum fyrri hálfleik og sköpuðu sér nokkur hálffæri og Chris Tsonis fékk eitt dauðafæri sem Jóhann Sigurðsson markvörður Selfoss varði vel. Skömmu síðar tapaði Morin boltanum á slæmum stað og Selfyssingar renndu boltanum inn á vítateig Stólanna þar sem aðstoðardómari taldi Ingva Hrannar brotlegan og vítaspyrna dæmd. Ingólfur Veðurguð Þórarinsson var laus við sviðsskrekk og skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni. 0-1 í hálfleik.
Lið Selfoss gaf fá færi á sér í síðari hálfleik. Þó fékk Tsonis 2-3 færi en menn skora sjaldnast ef þeir hitta ekki markið og því fór sem fór. Líkt og í leiknum gegn Grindvíkingum fyrir viku reyndu Stólarnir mikið að brjóta upp leikinn með löngum sendingum á kantmennina en árangurinn var lítill. Þegar á leið færðu Stólarnir sig framar og framar á völlinn og gestirnir fengu 2-3 álitleg færi en voru klaufar að nýta ekki sénsana betur. En það er gömul en góð lumma að menn eiga aldrei að gefast upp. Í uppbótartíma pressuðu Stólarnir stíft og fengu hornspyrnur og aukaspyrnur sem gestirnir hreinsuðu frá. Markvörður Stólanna, Seb Furness, var farinn að rusla sér inn í teig gestanna en allt kom fyrir ekki – ekki fyrr en á ögurstundu að sjálfsögðu. Á 95. mínútu fengu Stólarnir enn eina hornspyrnuna sem Atli Ödda tók, gestirnir skölluðu frá, Stólarnir áttu misheppnaða spyrnu inní teiginn en boltinn barst á Atla aftur og hann setti flottan bolta fyrir markið sem Ingvi Hrannar skallaði í netið við mikinn fögnuð og feginleika heimamanna. Um leið og Selfyssingar tóku miðjuna flautaði dómarinn til leiksloka og 1-1 jafntefli staðreynd.
Bestir í liði Tindastóls voru Atli og Eddi en í raun var varnarleikur Stólanna fínn. Sóknarleikurinn var hinsvegar ekki upp á marga fiska og gekk Tindastólsmönnum illa að skapa sér færi. Það hafði auðvitað sitt að segja að varnarleikur Selfoss var góður en sóknarleikur gestanna var jafnvel bragðdaufari en heimamanna. Heilt yfir voru úrslitin sanngjörn en lið Tindastóls sterkari aðilinn í leiknum.
Tindastóll er í 8. sæti með 21 stig þegar sex umferðir eru eftir. Selfyssingar eru í 9. sæti þremur stigum á eftir Stólunum en hefðu með sigri komist upp fyrir Tindastól. Þróttur er með 17 stig, KF er sem stendur í fallsæti með 15 stig og Húsvíkingar eru sem fyrr á botninum með 2 stig. Nú á þriðjudaginn eiga Stólarnir erfiðan leik gegn Fjölni í Grafarvoginum en á laugardaginn mætir lið KF á Krókinn og þá er betra að fjölmenna á völlinn og hvetja strákana til sigurs.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.