Allir út – Áskorandinn Heiðrún Ósk Jakobínudóttir

Ég er mikið fyrir útiveru. Ég elska náttúruna. Sennilega er það eitthvað uppeldistengt þar sem ég var mikið úti og í kringum skepnur sem krakki. Ég er alin upp í sveit með hross og sauðfé. Einn köttur var á bænum til að halda músum í skefjum. Skuggi gamli labradorinn átti líka heima hjá okkur. Ég held að ég hafi verið fimm ára þegar hann kom til okkar sem hvolpur. Ég var skíthrædd við lætin í honum en seinna urðum við góðir vinir. Hann lá alltaf undir barnavagninum þegar systkini mín sváfu í honum og passaði þau. Þá var hann alveg steinhættur að vera hvolpur eða með læti. Reyndar var hann þá frekar latur.

Ég hef alltaf heillast af hrossum, kindurnar þóttu mér heldur leiðinlegar nema rétt yfir vorin og haustin. En hrossin gat maður alltaf sótt og lent í ævintýrum. Ég var ekki há í loftinu þegar ég bað pabba að leggja fyrir mig á Ekkus því ég náði ekki upp sjálf. Seinna eignaðist ég þann besta hest sem ég mun nokkurn tímann eiga. Hann er reyndar dauður í dag, kannski útskýrir það frægðarljómann sem á honum er því í sannleika sagt var hann enginn gæðingur.

Sægrímur var stór, svartur og spikfeitur. Alveg sama hvað, hans form var kringlótt. Hann var dugnaðarklár og elskaði göngur. Hann þoldi illa beislið. Mamma gaf mér hann eftir að hann sturtaði henni af sér í hestaferð, uppá Eyvindastaðarheiði ef ég man rétt. Hann var ósköp ljúfur, frekar misskilinn og þurfti meiri ferð en margir vilja. Sægrímur kenndi mér margt. Af engum hesti hef ég oftar dottið, enda tók hann oft eigin ákvarðanir og þá var bara að halda sér. Hann passaði mig samt alltaf. Eitt skiptið náði hann að kasta mér af sér með vænni skvettu en fór sjálfur á bólakaf í drulludý. Einu sinni komum við Emil að kíkja á hrossin sem voru þá í fjallinu fyrir ofan Vík.  Þá höfðu þau  slitið strenginn og lá hann á jörðinni.  Þau voru öll komin langt upp í fjall nema Sægrímur, hann stóð við strenginn og beið. Þetta fannst mér lýsandi fyrir hann því ég hafði oft riðið honum yfir girðingar.

Ég hef unnið við flest sem viðkemur sveit. Ég hef töluverðar áhyggjur af þróuninni sem er að eiga sér stað og enginn virðist ætla að reyna að stoppa hana. Þeir sem eru komnir heldur langt frá grasrótinni eru að verða fleiri og hafa hærra. Það á að kjöldraga og krossfesta bændur. Ísland á að verða algjörlega uppá aðra komið. En hvað gerist þegar búið verður að svæla alla bændur út. Hvernig verður þá að ferðast um landið okkar? Hvert ætlar fólk út á land þegar ekkert verður eftir út á landi? Hverjir eru að byggja landið? Eru það ekki einmitt bændur? Þeir spila að minnsta kosti afar stórt verk í þessari vél sem samfélagið okkar er.  Ég óska þess heitt að einhver stígi upp og segi stopp. Við eigum eitt fallegasta land í heimi (ég hef reyndar ekki skoðað nema brot af heiminum sjálf) og það er skylda okkar að halda því fallegu og í byggð.

Ég skora á Bjartmar Halldórsson, bónda á Skriðulandi í Austur – Húnavatnssýslu.

Takk fyrir mig.

Heiðrún Ósk, Húnvetnskur Skagfirðingur.

Áður birst í 30. tbl Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir