Alls konar veður eða veðurleysur í júlí

Í skeyti Veðurklúbbs Dalbæjar segir að eftir allskonar veður í júní, eins og klúbburinn hafði spáð í byrjun mánaðarins, þá sé nú komið að spá júlímánaðar. Þar kemur einnig fram að spáin fyrir júlí sé á flestan hátt svipuð og í fyrri mánuði nema von sé á hærra meðaltals hitastigi.

„Það verða því með skyni og skúrum úr öllum mögulegum áttum með stillum eða blæstri til skiptis. Einhverjir félagar sáu fyrir sér snjó niður að sjó hérna fyrir norðan öðru hvoru megin við næstu mánaðarmót en það tæki fljótt af, enda voru aðrir í klúbbnum alveg til í að sú spá rættist ekki,“ segja veðurspámenn.

Þeir mæla með því að fólk notist við skammtímaspár samkeppnisaðila þeirra og elti þannig góða veðrið eins og mögulegt er núna í júlí, því það verður eltingarleikur sem erfitt verður að skipuleggja langt fram í tímann.
Eins og hefðin segir til um fylgja vísur með kveðjum hinna veðurglöggu Dalbæjarbúa.

Bændagleði
Þegar dögg og sumarsól
sigurkröftum beitir
– bændagleði á grænum kjól
gengur um allar sveitir.
   Höf.: Halldór Helgason Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum

Hvert skal halda
veit ég ei,
verður út og suður.
Veður valda
á Norðurey
að verði landkönnuður.
   Höf. Bjór.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir