„Alls staðar fengið frábærar undirtektir“

Nýr bátur af tegundinni Sómi 900, Súla SK, kom til hafnar á Hofsósi sunnudaginn 15. júní. „Þetta er búinn að vera draumur hjá mér til margra ára að gera eitthvað í þessum dúr og efla Hofsós sem ferðaþjónustustað. Þetta er bara hluti af því, hér vantar meiri afþreyingu. Sundlaugin sinnir um 20 þúsund gestum yfir sumartímann og það væri gott að ná þó ekki væri nema smá prósentu af því,“ segir Ingvar Daði Jóhannsson eigandi bátsins og fyrirtækisins Haf og land ehf.

Ingvar Daði stofnaði fyrirtækið ásamt Barböru Wenzl og nú mun Súlan sigla um Skagafjörð og með ferðamenn sem vilja njóta útsýnis og fuglaskoðunar.

Feykir leit við á bryggjunni hjá Ingvari Daða í síðustu viku og sagði hann siglinguna frá Reykhólum til Hofsós hafa gengið mjög vel. Hann segir það einnig ánægjulegt hversu vel var tekið á móti þeim við komu bátsins til Hofsóss.

„Ég átti von á mömmu og pabba á bryggjuna, en það mætti fjöldi manns. Ég hef alls staðar fengið frábærar undirtektir við þessu og samstarfið við aðra ferðaþjónustuaðila lofar góðu. Það eru þegar komnar pantanir þó maður sé ekkert byrjaður að auglýsa,“ segir hann en spjall við Ingvar Daða má sjá í Feyki vikunnar.

Hér er heimasíða Haf og lands ehf.

Fleiri fréttir