Allt að 70 bifreiðar í vandræðum á Vatnsskarði

Skjáskot af umferðarvef Vegagerðarinnar sem sýnir færð – eða frekar ófærð – á vegum nú um klukkan 15:30 í dag.
Skjáskot af umferðarvef Vegagerðarinnar sem sýnir færð – eða frekar ófærð – á vegum nú um klukkan 15:30 í dag.

Lögreglan á Norðurlandi vestra hvetur vegfarendur til að fylgjast vel með færð og veðri en gul veðurviðvörun er fyrir umdæmið í dag. Björgunarsveitir eru að störfum á Vatnsskarði en þar eru ökumenn allt að 70 bifreiða í vandræðum í mjög slæmu veðri. Búið er að loka Öxnadalsheiði.

Þá er þjóðvegurinn um Langadal mjög erfiður yfirferðar. Nánast ekkert skyggni og blindhríð. Björgunarsveitir eru að störfum á Vatnsskarði eins og áður hefur komið fram og þar eru ökumenn allt að 70 bifreiða í vandræðum. Búið er að loka þjóðveginum um Vatnsskarð og eru vegfarendur góðfúslega beðnir um að vera alls ekki á ferðinni á þessum slóðum.

Þá er vegurinn yfir Þverárfjall lokaður og sömu sögu er að segja um Siglufjarðarveg. Vegurinn yfir Holtavörðuheiði er fær en þar er bálhvasst. Í hádegisfréttum var fólk beðið um að geyma ferðalög á Norðurlandi fram á morgundaginn sé þess var kostur en í raun er ekkert val lengur – heiðar flestar lokaðar og veður vont.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir