Allt að gerast í Félagsheimilinu á Hvammstanga
Nýr búnaður bættist við hjá Félagsheimilinu á Hvammstanga þegar Leikflokkur Húnaþings vestra og félagsheimilið skrifuðu undir samning vegna kaupa á ljósabúnaði fyrir rúmar tvær milljónir króna til afnota fyrir Félagsheimilið. Hér er væntanlega um kærkomna viðbót að ræða fyrir húsið þar sem nýi búnaðurinn leysir af hólmi ljósabúnað sem er að hluta til upprunalegur eða frá árinu 1960. Sagt er frá þessu á heimasíðu Húnaþings vestra.
Eins og sagt var frá á Feyki.is nýlega standa nú yfir æfingar á Snædrottningunni eftir H.C. Andersen sem frumsýna á þann 7. desember nk. Því mun nýi ljósabúnaðurinn strax koma að góðum notum. Þá stendur til að sýna söngleikinn Hárið um næstu páska.
Um síðustu helgi tóku sjálfboðaliðar sig saman og máluðu sviðið í Félagsheimilinu, bæði veggi og gólf, drapperingar voru settar í hreinsun og sviðið undirbúið fyrir nýjar ljósagræjur.
Myndir frá framkvæmdunum má sjá hér.