Ánægja með nýja líkamsræktarstöð á Skagaströnd

Úr nýja líkamsræktarsalnum. Mynd: Skagastrond.is.
Úr nýja líkamsræktarsalnum. Mynd: Skagastrond.is.

Góð aðsókn var þegar nýr líkamsræktarsalur var tekinn í notkun í íþróttahúsinu á Skagaströnd í síðustu viku. Salurinn er á miðhæð hússins en það húsnæði hefur verið nýtt sem kennslustofur undanfarin ár. Eftir breytingar á húsnæði grunnskólans síðastliðið ár var öll almenn kennsla flutt undir sama þak og gafst því möguleiki á að nýta plássið sem losnaði í íþróttahúsinu fyrir líkamsræktaraðstöðu.

Í nýja salnum eru 18 tæki sem fengin eru frá World Class og eiga þau að gefa möguleika á þjálfun fyrir sem flesta vöðva líkamans að því er segir á vef sveitarfélagsins Skagastrandar. Einnig eru þar þrjú öflug hlaupabretti. Við opnunina þann 17. janúar voru tækin kynnt og Ólafur Jóhannesson, stöðvarstjóri hjá World Class, kenndi starfsfólki rétta notkun tækjanna. Auk þess kynnti Þórey Fjóla Aradóttir hvaða þjónustu hún getur boðið upp á sem einkaþjálfari. Ríkti mikil ánægja meðal gesta með nýja aðstöðu og búnað og þau tækifæri sem opnast með þessari breytingu

Í íþróttahúsinu er, auk líkamsræktarstöðvarinnar, ágætur salur fyrir júdó, karate og jóga. Í tilefni breytinganna og tímamótanna lagði Ungmennafélagið Fram til dýnur á allt gólf salarins.

Þessi breyting er mikil bylting á aðstöðu fyrir líkamsræktina sem hefur undanfarin 20 ár verið í kjallara íþróttahússins í fremur þröngu rými og með misjöfnum tækjabúnaði. Í kjallaranum verður áfram lyftingabúnaður, lóð og þess háttar þjálfunaraðstaða.

Um þessar mundir eru 20 ár síðan íþróttahúsið á Skagaströnd var tekið í notkun, en það var formlega opnað 15 mars 1998. Í húsinu er 16x32 metra salur með parketgólfi þar sem hægt er að stunda ýmsar íþróttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir