Árleg inflúensubólusetning á næstu dögum
Á næstu dögum verður bólusett gegn inflúensu á heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Í auglýsingum frá Heilbrigðisstofnuninni segir að allir einstaklingar eldri en 60 ára ættu að láta bólusetja sig svo og öll börn og fullorðnir með langvinna hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdóma, sykursýki, illkynja sjúkdóma og aðra ónæmisbælandi sjúkdóma. Einnig er æskilegt að heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í framantöldum áhættuhópum fái bólusetningu svo og þungaðar konur. Ennfremur eru lungnabólusetningar ráðlagðar einstaklingum eldri en 60 ára.
Bóluefnið er áhættuhópum að kostnaðarlausu en greiða þarf komugjald.
Inflúensa er árviss sjúkdómur sem gengur yfir norðurhvel jarðar á tímabilinu október til mars og er hún 2–3 mánuði að ganga yfir. Sambærilegur faraldur gengur síðan yfir á suðurhveli jarðar á tímabilinu júní til október. Í þungum faraldri eykst álag á heilbrigðiskerfið og í samfélaginu fjölgar fjarvistum vegna veikinda frá vinnu og skóla. Dauðsföllum hjá öldruðu fólki fjölgar einnig í kjölfar inflúensunnar að því er segir á doktor.is.
Inflúensan er veirusjúkdómur og eru veirurnar sem valda af stofnum A, B og C. Oftast er það inflúensa A sem veldur árlegum inflúensufaraldri. Þar sem veiran er mjög breytileg eru inflúensufaraldrar árlegir og því nauðsynlegt að endurnýja bólusetninguna árlega segir einnig á doktor.is en þar má fræðast nánar um sjúkdóminn.
Bólusett verður sem hér segir:
Á Heilsugæslustöðinni á Blönduósi:
Þriðjudaginn 25. september klukkan 13:00-15:00.
Miðvikudaginn 26. september klukkan 10:00-12:00.
Þriðjudaginn 2. október klukkan 10:00-12:00.
Á Heilsugæslustöðinni á Skagaströnd:
Fimmtudaginn 27. september klukkan 9:00-11:00.
Á Heilsugæslustöðinni á Sauðárkróki:
Þriðjudaginn 25. september klukkan 13:30-15:00.
Fimmtudaginn 27. september klukkan 13:30-15:00.
Mánudaginn 1. október klukkan 13:30-15:00.
Á Heilsugæslustöðinni á Hofsósi:
Þriðjudaginn 2. október frá klukkan 15:30.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.