Árni á Uppsölum dundar sér við smáhýsasmíði í bílskúrnum - Fullsetnar kirkjur og speglalagðir burstabæir

Mynd: Níræður Árni við nýbyggða eftirlíkingu af Silfrastaðakirkju. Mynd: Eyþór Árnason
Mynd: Níræður Árni við nýbyggða eftirlíkingu af Silfrastaðakirkju. Mynd: Eyþór Árnason

Árni Bjarnason, fyrrum bóndi á Uppsölum í Skagafirði, varð 90 ára sl. mánudag og fagnaði tímamótunum með fjölskyldu sinni á laugardaginn. Árni segist reyna að vera sperrtur og ekki er annað sjá en svo sé á meðfylgjandi mynd sem tekin var af kappanum sl. laugardag í bílskúrnum á Uppsölum. Þar unir hann sér vel við að smíða m.a. burstabæi og kirkjur.

„Ég er að fikta við hitt og þetta. Það eru aðallega litlir burstabæir svo á ég alltaf kirkjur hér á pallinum, fyrir utan þessa,“ segir Árni. Bæirnir eru um 125 sm á lengd, 50 á hæð, fyrir utan 25 sm lappir, og milli 30 og 40 sm á dýpt. Hann segir húsin einnig með rafmagni og sum þeirra fóðruð að innan með speglum en þá sýnast þau stærri þegar litið sé inn. Kirkjurnar eru svo með fullsetna bekki af kirkjufólki, prestum, organistum og kirkjukór og allt heimatilbúið.

Árni segist hafa selt dálítið af þessum húsum og eru þau komin yfir 100 sem hann hefur barið saman. „En það eru alltaf fáein á lager ef þig vantar íbúð,“ segir hann léttur í bragði.

Stórafmæli
Nú á mánudaginn voru stór tímamót hjá Árna en þá varð hann níræður og auðvitað var þeirra minnst með veislu. „Jú, ég komst upp um eina tröppu. Afkomendur okkar Sólveigar hittust á Löngumýri á laugardaginn þar sem við borðuðum saman og var býsna góð mæting. Vantaði aðeins eina fjölskyldu og eitt barn þar fyrir utan. Það var mikið fjör í unga fólkinu,“ segir hann enda barnabörnin og langafabörnin að nálgast þrjátíu. „Þetta er skemmtilegur hópur þegar hann kemur saman.“

Sungið með Heimi
Fyrir utan það að dunda sér við húsasmíðarnar tekur Árni fullan þátt í starfsemi Karlakórsins Heimis líkt og undanfarna áratugi. „Ja, ég stend þarna í röðinni,“ segir Árni hógvær en bætir við þegar blaðamaður dregur það í efa að hann bæri bara varirnar til að sýnast. „Jú, maður reynir að gaula eitthvað. Þetta er úrvals félagsskapur og mjög ánægjulegt hvað kemur margt af ungum strákum í þetta. Það er spursmál um lífið í svona félagsskap að einhverjir komi nýir með.“

Eitthvað á döfinni
Árni segir ekki stór plön hjá kórnum fyrir utan það að stefnt sé að áramótasöng. „Svo veit hamingjan hvað verður meira út af þessari pest. Það getur verið erfitt að fara í einhver söngferðalög ef enginn má koma og hlusta. Ég held að þetta verði allt næsta ár. Þetta er svo mikið út um allan heim og mikið um ferðalög til og frá landinu. Þegar verður búið að margbólusetja liðið þá kannski fer þetta hægar. Maður vonar það besta og reynir að lifa hitt af.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir