Ársfundur Þekkingarsetursins á Blönduósi
Nýlega var ársfundur Þekkingarsetursins á Blönduósi haldinn í Kvennaskólanum á Blönduósi. Á dagskrá voru venjuleg ársfundarstörf og kynning á starfsemi setursins árið 2016. Starfsemin var fjölbreytt á árinu og unnið með samþykktir setursins að leiðarljósi: Að nýta aðstæður og svæðisbundna sérstöðu til þess að stuðla að aukinni þekkingu og fjölbreytni atvinnulífs með fræðastarfi, eflingu háskólamenntunar, vísindarannsóknum og nýsköpun á sérsviðum setursins, strandmenningu, laxfiskum og textíl.
Í skýrslu Katharinu A. Schneider, framkvæmdastjóra Þekkingarsetursins, kemur fram að gerður var samstarfssamningur við Textílsetrið varðandi eflingu textíllistamiðstöðvarinnar, þróun textílnáms, ráðningu sérfræðings í tímabundið verkefni við skráningu vefnaðarmunstra, kaup á rafrænum vefstóll TC2 frá Noregi og ráðningu sameiginlegs starfsmanns á skrifstofu í Kvennaskólanum. Ennfremur var gerð samstarfsyfirlýsing við Heimilisiðnaðarsafnið um skráningu upplýsinga tengdum munum safnsins og aðgengi fyrir listamenn að safninu.
Starfsmenn setursins tóku m.a. þátt í undirbúningi Prjónagleði 2016, þeir kynntu starfsemi i Kvennaskólanum á ráðstefnu Nordic Textile Arts í Bergen og heimsóttu Textílsetrið Textiles Zentrum Haslach í Austurríki.
Stjórn setursins skipa Arnar Þór Sævarsson formaður; Þóra Sverrisdóttir, fulltrúi Húnavatnshrepps; Valgarður Hilmarsson, fulltrúi Laxasetursins. Varamenn eru Magdalena Berglind Björnsdóttir og Erla Ísafold Sigurðardóttir, fulltrúar Blönduósbæjar. Katharina A. Schneider er framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins