Ásdís Aþena og Hrafnhildur Kristín sigurvegarar í söngvarakeppni

Söngvarakeppni Grunnskóla Húnaþings vestra fór fram í Félagsheimilinu Hvammstanga sl. föstudagskvöld. Keppninni var skipt í tvo aldursflokka, yngri og eldri, en í yngri flokki fagnaði Ásdís Aþena Magnúsdóttir sigri og Hrafnhildur Kristín Jóhannsdóttir í þeim eldri. Norðanátt.is greinir frá þessu.

Ásdís Aþena Magnúsdóttir flutti lagið „Laugardagur“ (korter yfir sex) eftir Braga Valdimar Skúlason. Í 2. sæti varð Guðmundur Grétar Magnússon en hann söng lagið „Gefðu allt sem þú átt“, með Jóni Jónssyni. Það var svo Axel Nói Thorlacius sem söng „Lagið um það sem er bannað“ og náði 3. sæti.

Hrafnhildur Kristín Jóhannsdóttir, sigurvegari í eldri flokki, flutti íslenska útgáfu af laginu „The Story“ með Brandy Carlile. Í 2. sæti varð Dagný Guðmundsdóttir en hún söng lagið „Elín“ sem er á plötunni Fólkið í blokkinni. Þriðja sætinu náðu svo Ísak Líndal og Viktor Ingi Jónsson, en þeir tóku lagið „Best Song Ever“ með One Direction, með frumsömdum íslenskum texta.

Í yngri flokk voru sex atriði en fjögur atriði í þeim eldri. Kynnar kvöldsins voru Agnar Ási Ægisson og Ásdís Helga Másdóttir. Hljómsveitina skipuðu Arnar Freyr Geirsson, Dagur Smári Kárason, Guðmundur Hólmar Jónsson, Hjörtur Gylfi Geirsson, Jón Ómar Hannesson og Valdimar Gunnlaugsson.

Dómnefndin sem stóð fyrir því vandasama verki að velja þrjú efstu sætin í hvorum flokki skipuðu Sigurvald Ívar Helgason, Skúli Einarsson og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir.

Myndir frá keppninni má finna á vef Norðanáttar.

Fleiri fréttir