Ásdís Brynja í hollenska landsliðið
Ásdís Brynja Jónsdóttir á Hofi í Vatnsdal hefur verið valin í hollenska landsliðið í hestaíþróttum. Ásdís segir að leiðarvísirinn fyrir landsliðsvali sé öðruvísi háttað í Hollandi en á Íslandi en þar þarf að ná ákveðinni lágmarkseinkunn á world ranking mótum til að eiga möguleika á að verða valinn.
„Ég var búin að ríða lágmörkin einu sinni fyrir Íslandsmótið sem fór fram á Hólum svo spennan var í hámarki. Ég reið svo lágmörkin í forkeppninni í fimmgangi og sigraði svo b-úrslitin með 6,31 sem fóru fram á laugardaginn. Seinna sama dag fékk ég svo að heyra að ég væri komin í landsliðið,“ segir Ásdís.
Hesturinn sem Ásdís keppir á heitir Sleipnir frá Runnum og er 11 vetra gamall undan Orra frá Þúfu og Grímu frá Lynghaga. „Ég myndi lýsa hestinum sem heilsteyptum alhliða gæðingi með frábært geðslag.“
Feykir óskar Ásdísi til hamingju með von um gott gengi ytra.