Áskell Heiðar framkvæmdastjóri 1238, The Battle of Iceland

Áskell Heiðar Ásgeirsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fræðslu- og upplifunarmiðstöðvar um Sturlungaöldina sem opnar á Sauðárkróki síðar á árinu. Miðstöðin hefur fengið nafnið 1238, The Battle of Iceland.

Áskell Heiðar er menntaður landfræðingur frá Háskóla Íslands, með diplómu í opinberri stjórnsýslu frá HÍ og MA gráðu í ferðamálafræði og viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum og Leeds Metropolitan University. Áskell Heiðar hefur skipulagt fjölda viðburða hérlendis á undanförnum árum t.d. tónlistarhátíðirnar Bræðsluna og Drangey Music Festival, auk þess að stýra síðustu tveimur Landsmótum hestamanna sem fram fóru á Hólum í Hjaltadal árið 2016 og í Reykjavík sl. sumar.  Þá hefur hann einnig kennt viðburðastjórnun og ferðamálafræði við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands undanfarin ár.  Áskell Heiðar starfaði hjá sveitarfélaginu Skagafirði í tæpan áratug m.a. á vettvangi ferða-, kynningar- og menningarmála.

Fræðslu- og afþreyingarmiðstöðin 1238, The Battle of Iceland, segir sögu Sturlungaaldarinnar með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika. Áhersla er lögð á þá stóru bardaga sem einkenndu öld Sturlunga, einkum Örlygsstaðabardaga sem fram fór árið 1238. Sýningin er gagnvirk sem þýðir að gestir taka mikinn þátt í henni og skapa sína upplifun að hluta til sjálfir. Henni er ætlað að höfða til allra aldurshópa. Í miðstöðinni verður einnig veitingastaður, upplýsingamiðstöð og safnbúð með vörum sem tengjast miðstöðinni svo og íslensku handverki og hönnunarvörum.

1238 er í eigu Sýndarveruleika ehf. og stjórnarformaður þess er Ingvi Jökull Logason. Unnið hefur verið að uppbyggingu miðstöðvarinnar í rúm tvö ár.  Húsnæði sem áður hýsti mjólkursamlag og skrifstofur KS hefur verið gert upp og fær nú nýtt hlutverk, að miðla sögu Sturlungaaldarinnar til Skagfirðinga og gesta þeirra.

Áskell Heiðar segist mjög spenntur fyrir þessu nýja verkefni: „Ég hef áður tekist á við svipað verkefni, en minna í sniðum þegar ég setti upp Kjarvalsstofu á Borgarfirði eystra fyrir mörgum árum og þá hef ég fjölbreytta reynslu af ferðaþjónustu í gegnum viðburðaskipulag mitt á síðustu árum.  Ég þekki líka vel til í ferðaþjónustu svæðisins frá fyrri störfum mínum og hlakka mikið til að vinna að uppbygginu á þessu metnaðarfulla verkefni sem Ingvi Jökull og hans fólk hefur lagt mikla vinnu í að undirbúa“.

Stefnt er að opnun 1238, The Battle of Iceland í vetur.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir