Áskorendapenninn/Þórdís Ágústsdóttir/Sumar í kassalandi

Þórdís ásamt fjölskyldu sinni úti í sænsku náttúrunni. MYND: Úr Einkasafni
Þórdís ásamt fjölskyldu sinni úti í sænsku náttúrunni. MYND: Úr Einkasafni

Áskorendapenninn úr síðasta tölublaði Feykis.

Hver elskar ekki að búa í kassalandi? Um stofuna flæða kassar af öllum stærðum og gerðum, sumir eru brothættari en aðrir. Að búa í kassalandi getur verið þreytandi. Sérstaklega þegar það lítur alltaf út eins og það sé drasl hjá manni alveg sama hvað maður pakkar miklu niður eða hendir. Hjálpar líka ekki til að litlir puttar týna jafn óðum upp úr kössunum sem maður reynir að pakka ofan í. Eins kemst maður að því hvað maður hefur náð að sanka að sér miklu dóti síðustu ár. Með hverjum deginum fjölgar kössunum og gólfplássið minnkar í stofunni. En sem betur fer verður meira pláss í nýju íbúðinni.

Nú í sumar stöndum við í flutningunum í okkar fyrstu íbúð, sem staðsett er í öðru hverfi hér í Gautaborg. Fyrir 4 árum síðan létum við fjölskyldan draum okkar rætast og fluttum til annars lands. Það er klárlega eitthvað sem er bæði ógnvekjandi, skemmtilegt en einnig spennandi. Að rífa sig upp frá vananum og slíta naflastrenginn frá Íslandi og Skagafirði getur verið erfitt. Í fyrstu veit maður ekkert hvað maður er að fara út í og hvað þá þegar maður þekkir engan í nýja landinu. En að flytja til útlanda þroskar mann og maður lærir að þekkja nýjar hliðar á sjálfum sér sem maður þekkti ekki áður. Ekki skemmir fyrir að maður kynnist fullt af nýju fólki sem maður hefði annars aldrei hitt. Maður kynnist nýrri menningu og maður býr til nýjar hefðir. Maður lærir að tala nýtt tungumál og börnin manns verða tvítyngd. Auðvitað kemur á móti að maður hittir ekki fjölskyldu og vini heima eins oft en það gerir þær stundir þegar maður loksins hittir þau ennþá dýrmætari og betri.

Í þetta skipti verða flutningarnir þó ekki eins stressandi. Brátt munu þetta allt taka enda og við getum loksins hætt að búa í kassalandi.

Að lokum langar mig að þakka Árna Gísla fyrir að skora á mig í áskorendapennanum. Næst skora ég á mágkonu mína Sigrúnu Evu Helgadóttur bónda á Reynistað til að taka við pennanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir