Átaksverkefni Sveitarfélagsins Skagastrandar

Félagsheimilið Fellsborg á Skagaströnd. Mynd: FE
Félagsheimilið Fellsborg á Skagaströnd. Mynd: FE
Á morgun, fimmtudaginn 11. apríl, býður 

Sveitarfélagið Skagaströnd til tveggja funda um atvinnumál í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Áttir ehf. Fundirnir verða haldnir í félagsheimilinu Fellsborg, sá fyrri klukkan 18-19, og er hann ætlaður starfandi fyrirtækjum og frumkvöðlum. Seinni fundurinn er ætlaður öllum íbúum sveitarfélagsins og fer hann fram klukkan 19-22. Fólk er hvatt til að mæta og kynna sér átaksverkefnið.

 

 

 

Fundurinn sem ætlaður er starfandi fyrirtækjum og frumkvöðlum nefnist Bættur rekstur – betri afkoma. Á honum verður farið yfir átaksverkefnið og leiðir til að bæta afkomu starfandi fyrirtækja. Verkefnið nær til fyrirtækja í öllum starfsgreinum og eru forsvarsmenn fyrirtækja hvattir til að mæta og kynna sér hvort verkefnið geti falið í sér tækifæri fyrir þeirra fyrirtæki. Kynnt verður fyrir frumkvöðlum hvaða aðstoð þeim stendur til boða til að fylgja hugmyndum sínum áfram. Í lok fundar geta þátttakendur skráð sig til að þiggja heimsókn frá ráðgjöfum sem verður daginn eftir, föstudaginn 12. apríl, um eina klukkustund á hvert fyrirtæki og hálftími á frumkvöðul.

Síðari fundurinn sem haldinn er fyrir alla íbúa svæðisins er til að efla nýsköpun á svæðinu. Um er að ræða hugarflugsfund til að leita og greina tækifæri til að efla atvinnustarfsemi á Skagaströnd. Dagskráin er þannig að fyrst fer fram kynning og hugarflug og verður unnið í hópum; hugmyndir fyrir sveitarfélagið, hugmyndir fyrir starfandi fyrirtæki, hugmyndir um nýja starfsemi. Klukkan 20:30-21:00 verður léttur matur og spjall og frá klukkan 21-22 verður farið yfir hugmyndir og þeim forgangsraðað.

Í auglýsingu á vef sveitarfélagsins eru íbúar hvattir til að mæta þar sem afar brýnt sé að snúa vörn í sókn í atvinnumálum á svæðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir