Atvinnuleysi lægst á Norðurlandi vestra

Það er gott að búa á Norðurlandi vestra. MYND: ÓAB
Það er gott að búa á Norðurlandi vestra. MYND: ÓAB

Atvinnuleysi er lægst á landinu á Norðurlandi vestra, eða aðeins 1,3%, samkvæmt nýjum tölum Vinnumálastofnunar. Í frétt Húnahornsins segir að skráð atvinnuleysi á landinu öllu í október hafi verið 3,9% og hafði þá aukist um 0,4% frá mánuðinum á undan. Í október 2024 var atvinnuleysið hins vegar 3,4%. Að meðaltali voru 8.030 atvinnulausir í október síðastliðnum, 4.661 karl og 3.369 konur. Meðalfjöldi atvinnulausra fjölgaði um 682 manns milli mánaða.

Atvinnuleysi hækkaði mest á Suðurnesjum, fór úr 5,6% í 7,1%. Atvinnuleysi lækkaði hvergi á landinu. Atvinnuleysi var 3,6% á landsbyggðinni í október mánuði og 4,1% á höfuðborgarsvæðinu. Á Austurlandi er atvinnuleysi 1,9%, Vesturlandi 2,6%, Vestfjörðum 2,7% og á Norðurlandi eystra 2,8%.

Atvinnuleysi karla var hærra en kvenna á landinu öllu í október og á meirihluta svæða. Mestur var munurinn á atvinnuleysi á Norðurlandi eystra þar sem atvinnuleysi karla var 3,1% en atvinnuleysi kvenna 2,4%. Á Vestfjörðum var því þó öfugt farið en þar mældist 3,0% atvinnuleysi meðal kvenna en 2,4% meðal karla.

Heimild: Húni.is

Fleiri fréttir