Baby born kjóllinn breyttist í skírnarkjól
Ragnheiður Sveinsdóttir grunnskólakennari á Hvammstanga er mikil prjónakona, þrátt fyrir að mamma hennar hafi gefið prjónakennsluna upp á bátinn þegar hún var krakki. En eftir að hún komst á bragðið með prjónaskapinn hefur hún varla stoppað og liggja ófá verkin eftir hana. Ekki skemmir það ánægjuna þegar flíkurnar skipta skyndilega um hlutverk eins og gerðist með dúkkukjólinn sem breyttist í skírnarkjól. Ragnheiður sagði lesendum Feykis frá handavinnunni sinni í þættinum Hvað ertu með á prjónunum? í 38. tbl. Feykis á síðasta ári.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?
Ég lærði að prjóna í grunnskóla. Mamma hafði eitthvað reynt að kenna mér að prjóna en ekkert gengið og hún kenndi því um að ég væri örvhent. Ég náttúrulega tilkynnti frænkunum Þóru og Þóru, sem ætluðu að ganga í málið, að það væri ekki hægt að kenna mér að prjóna því ég væri örvhent. "Mamma sagði það" (ég man ennþá eftir þessu! Þetta hefur verið haustið 1984). Ég sýndi nú smá frumleika í 9. bekk og prjónaði húfu sem ég gekk með í nokkur ár og á enn. Á framhaldsskólaárunum prjónaði ég ekkert en ákvað að prufa þetta aftur rétt eftir tvítug og hef eiginlega ekki stoppað síðan. Prjónið er svo þægilegt að taka með sér í vinnuna og bílinn en ég hef einnig ég gaman af því að sauma sem er þó meira á tilraunastigi og fer ekki út úr húsi. Þeir sem voru í FNV haustið 1993 muna kannski eftir buxum sem ég saumaði mér, svörtum með stórum hvítum doppum....
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?
Þessa dagana er ég að prjóna á litla frænku, heilgalla með köðlum og dúlleríi. Ég þarf svolítið að einbeita mér við það föndur svo ég dunda mér við það heima á kvöldin og er að prjóna peysu á sex ára systurdóttur mína á kennarastofunni.
Hvaða handverk sem þú hefur gert ert þú ánægðust með?

Einu sinni datt mér í hug að prjóna skírnarkjól á Baby born dúkku dóttur minnar. Svo var tilvalið að skella systurdóttur minni í hann þar sem hún fæddist löngu fyrir áætlaðan tíma og var lítil og nett en hún er fimm mánaða á myndinni sem fylgir með.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.