Bæjarhátíðin Hofsós heim um helgina

Bæjarhátíðina Hofsós heim þarf vart að kynna fyrir fólki því hátíðin hefur verið haldin á Hofsósi síðan 2003 og því orðin fastur liður í sumardagskrá heimamanna jafnt sem brottfluttra. Fyrst reyndar undir heitinu Jónsmessuhátíð sem síðar varð Hofsós heim 2018, þegar stöllurnar Vala Kristín Ófeigsdóttir og Auður Björk Birgisdóttir ásamt góðum hópi fólks héldu á keflinu og stýrðu hátíðinni, þar til nú því ný nefnd hefur starfað við skipulagningu á hátíðinni nú í ár. Dagskráin er glæsileg eins og alltaf og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Föstudaginn 14. júní byrjar Bæjarhátíðin Hofsós heim á því að íbúar sameinast við að skreyta götur og hús og fara svo saman og grilla í Félagsheimilinu Höfðaborg þar sem hver og einn kemur með sitt á grillið. Krakkar á aldrinum 10-14 ára geta svo skellt sér í sundlaugarpartý í sundlauginni á Hofsósi þar sem verður tónlist, stuð og stemming. Ball verður svo í Félagsheimilinu með hljómsveitinni Feðgarnir fyrir 18 ára og eldri.

Laugadagurinn er heldur betur með þétta, metnaðarfulla og spennandi dagskrá líka, þar sem börn geta skellt sér í Töfraskóla hjá Einari Mikael töframanni sem að sjálfsögðu endar með töfrasýningu, fjölskyldugarður, markaður, Latibær, líf og fjör í Dalasetri, opin hús víðsvegar um bæinn, svo fátt eitt sé nefnt.

Fjörubrenna með brekkusöng fyrir alla fjölskylduna verður svo kl. 20 áður en allir sem náð hafa 18 ára aldri skella sér á stórdansleik með Færibandinu og dansar fram á nótt.

Veðurspáin lítur svo sannarlega vel út fyrir helgina og ef það er einhver bæjarhátíð sem klikkar ekki þá er það þessi.

Dagskrá hátíðarinnar má finna í heild sinni HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir