Barðdalinn fór holu í höggi

 

Reynir Barðdal fór holu í höggi á 137 metra langri 6. braut Hlíðarendavallar á Sauðárkróki í gærkvöldi. Er þetta í fyrsta skipti sem Reyni tekst þetta ætlunarverk allra kylfinga. -Þetta gleður mann óneitanlega, segir Reynir.

Reynir segir þetta vera yndislegt enda búinn að vera að í golfinu yfir 20 ár án þess að hafa komið kúlunni alveg ofaní holuna í upphafshöggi. Aðspurður um hvort hann hafi verið nálægt því áður segir Reynir að það séu allir voða nálægt, vanti örfáa sentimetra. Reynir segir að það sem geri þetta enn skemmtilegra er að þetta gerðist á móti en Ólafshússmótið var í gærkvöldi. -Þetta er eins stórkostlegt og hægt er að hafa það.

Hvað skal gera ef maður fer holu í höggi? Á vef Einherja á Golf.is er sagt frá því hvernig eigi að bera sig að ef einhver vinnur þetta skemmtilega afrek:

Ef kylfingur vinnur það afrek að fara “Holu í höggi” á golfvellinum, ber honum að uppfylla eftirtalin skilyrði til að fá það viðurkennt:

  • 1. Leika þarf minnst 9 holur og vera með a.m.k. einn meðspilara (vitni).
  •  
  • 2. Höggið verður að vera það fyrsta sem slegið er af teig og í átt að holu.
  •  
  • 3. Völlurinn sem afrekið er unnið á verður að vera minnst 4000 metra langur og vera viðurkenndur sem keppnisvöllur af GSÍ eða sambærilegum erlendum aðila. Ekki er viðurkennd “Hola í höggi” af par 3 völlum eða áþekkum æfingarvöllum.
  •  
  • 4. Skorkort verður að fylla rétt út. Á það skal einnig rita nafn, dagsetningu-hvenær afrekið var unnið, á hvaða velli og á hvaða braut svo og heimilisfang og kennitölu leikmannsins. Verður þetta allt að vera á blaðinu svo afrekið sé viðurkennt.
  •  
  • 5. Tilkynna verður um afrekið til klúbbstjórnar eða starfmanns á þeim golfvelli þar sem það var unnið. Einnig ber að senda gögn – bréf og eða ljósrit af skorkorti – til skrifstofu Golfsambands Íslands strax eftir að afrekið var unnið. Ber leikmanni sjálfum að tryggja að slíkt sé gert. Senda má gögnin með símbréfi – faxi – til GSÍ.
  •  
  • 6. Í lok hvers árs eru þau sem fóru “Holu í höggi” á árinu kölluð saman. Þar fá þau afhenta viðurkenningu fyrir afrekið frá Einherjaklúbnum. Venjulega fer þessi afhending fram á milli jóla og nýárs og er sagt frá með góðum fyrirvara í fjölmiðlum.
  •  
  • 7. Sá sem fer “Holu í höggi” er með því að senda gögnin til GSÍ orðin fullgildur meðlimur í Einherjaklúbbi Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir