Benedikt Lafleur synti Grettissund öðru sinni

Benedikt S. Lafleur synti sitt annað Grettissund í gær er hann lagði af stað kl 7.21 um morguninn frá Uppgönguvíkinni og kom í land rúmlega 12 á hádegi. Þegar lagt er í sundið frá Uppgönguvík sem er lengri leiðin frá Drangey er vegalengdin um 7,2 km.

Benedikt sem hefur verið að æfa sig fyrir mikið þreksund segir að þriðja æfingasundið hans hafi klúðraðist fyrir stuttu vegna óvæntrar vindáttar og mikils roks sem gerði bæði sund og bátafylgd algjörlega ómögulega.

-Í þetta sinn var kyrrt og sólríkt en sjórinn næstum gráðu kaldari mest alla leiðina. Hitastigið við yfirborð sjávar var á milli 11 og 12 gráður en í fyrra skiptið vel rúmlega 12 gráður, segir Benedikt sem var tæpar 5 klst. á leiðinni og öllu lengur en hann bjóst við. Í fyrra skiptið tókst honum betur að færa sér sjávarstraumana í nyt og synti vegalengdina á 3,5 klst.

Bátafylgd önnuðust feðgarnir Viggó Jónsson og Helgi Rafn hjá Drangeyjarferðum, en þeir hafa stundað siglingar á þessum slóðum í fjölda ára og skipuleggja reglulegar ferðir út í eyju.

Benedikt segir að þeir feðgar, Viggó og Helgi hafi hvatt sundmanninn til dáða og hjálpað honum mjög vel að halda réttri stefnu.

Fleiri fréttir