Berglín landar rækju á Hvammstanga
Anna Scheving á Hvammstanga er öflug við að festa á filmu það sem fyrir augu ber í Húnaþingi vestra og nýtur Feykir gjarnan góðs af. Að þessu sinni var hún að ferð við höfnina þegar verið var að landa rækju úr togaranum Berglín GK 300 sem er í eigu Nesfisks.
Þegar Feykir hafði samband við hafnarvörð á Hvammstanga var hann í óða önn að vigta rækjuna og því lá ekki fyrir um hve mikið magn væri að ræða. Reiknaði hann með að aðeins yrði um þessa einu löndun á Hvammstanga að ræða, í bili að minnsta kosti, því Berglín hefur skipt um veiðarfæri og úr rækju yfir í fiskitroll.