Bergþór Ólason efstur á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi
Nú hamast stjórnmálaflokkar landsins við að stilla upp á framboðslista sína. Í gær var tilkynnt að Bergþór Ólason framkvæmdastjóri á Akranesi muni leiða lista Miðflokksins, flokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 28. október nk. Bergþór er framkvæmdastjóri Byggingalausna ehf. og LOB ehf, áður Loftorka í Borgarnesi ehf, að því fram kemur í tilkynningu.
Bergþór Ólason er búsettur á Akranesi. Hann hefur verið virkur þátttakandi í starfi Sjálfstæðisflokksins og m.a. var hann um tíma aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Hann hefur sinnt fjölbreyttum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina, bæði í stjórnmálum sem og félagsmálum. Bergþór er viðskiptaskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lagt stund á MBA nám við Manchester Business School.
„Bergþór mun m.a. leggja áherslu á byggingu nýs Landspítala á nýjum stað og skynsamlega lækkun tryggingagjalds til að bæta starfsumhverfi fyrirtækja,“ segir í tilkynningu sem birt var á Facebook síðu Miðjuflokksins nú í gær.
Af þessu má ráða að ólíklegt sé að Gunnar Bragi Sveinsson, sem sagði á dögunum skilið við Framsóknarflokkinn og gekk til liðs við Miðflokkinn, muni taka sæti á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Þess má til gamans geta að pabbi Bergþórs er Hrútfirðingurinn Óli Jón Gunnarsson frá Bálkastöðum, sem lærði á sínum tíma til múrara í Iðnskólanum á Króknum og var ásamt Badda múrara, Svenna Siffa og Helga Rafni, svo einhverjir séu nefndir, einn af upphafsmönnum körfuboltans á Sauðárkróki.