Bókabúð Amazon á netinu eins og nammibúð

Halldór nýtir frístundirnar gjarna til lestrar. Aðsend mynd.
Halldór nýtir frístundirnar gjarna til lestrar. Aðsend mynd.

Bíður spenntur eftir jólagjöfinni

Halldór Gunnar Hálfdansson, bóndi á Molastöðum í Fljótum svaraði spurningum í Bók-haldinu, bókaþætti Feykis, í nóvember 2017. Halldór segist hafa gaman af að glugga í bækur sér til yndis, en ekki síður fróðleiks, þegar frístundir gefast frá bústörfum og barnauppeldi sem er ærinn starfi þar sem þau hjónin eiga átta börn. Halldór hefur lengi haft sérstakan áhuga á að lesa um seinni heimsstyrjöldina, allt síðan hann las fyrstu bókina eftir Sven Hassel. Núorðið les hann aðallega bækur í spjaldtölvum og bókabúð Amazon á netinu er í miklu uppáhaldi hjá honum. 

Hvers konar bækur lestu helst?

Ég er hættur að lesa skáldsögur en les aðallega fræðibækur um sagnfræði, þjóðhætti og ævisögur, helst ævisögur fólks sem hefur ekki bundið bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. Las um daginn ævisögu útfararstjóra í Los Angeles borg, afar áhugaverð og lifandi frásögn þar á ferðinni. 

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?

Ég hélt mikið upp á Tinnabækurnar, það sama mætti segja um Ástrík, Sval og Val og myndabækur Almenna bókafélagsins um seinni heimsstyrjöldina. Fyrsta stóra bókin var kannski ekki heppileg fyrir barn að lesa, en hún hét Guði gleymdir eftir danska höfundinn Sven Hassel, en hann gengdi herþjónustu í þýska hernum í seinni heimsstyrjöldinni. Í henni voru full grófar lýsingar af stríðsbrölti nasista sem ég hafði kannski ekki gott af því að lesa. Ég kenni bræðrum mínum um, þeir voru miklir aðdáendur höfundarins og héldu þessu að mér. Síðan hef ég haft mikinn áhuga á seinni heimsstrjöldinni. 

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?

Uppáhaldsbókin mín er oftast sú sem ég les hverju sinni, ég sekk mér oft ofan í þá bók en eftir tvö til þrjú ár er ég búinn að gleyma henni og get orðið jafn upptekinn af henni þegar ég les hana aftur. 

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur/ rithöfundar og hvers vegna?

Ég les sjaldan fleiri en eina bók eftir sama höfund en ég verð að segja að ég bíð spenntur eftir næstu bókinni hans Illuga Jökulssonar um háska í hafi í kringum Ísland á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar, foreldrar mínir hafa gefið mér bækur þessar í jólagjöf síðustu ár. 

Hvaða bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?

Í dag les ég aðallega bækur í spjaldtölvum, bókabúð Amazon á netinu er eins og nammibúð fyrir lesendur óvenjulegra bókmennta, úrvalið gríðarlegt og verðið oft hagstætt. Ég var að klára bókina The death of St.Kilda sem fjallar um brottflutning allra íbúa eyjunnar St.Kilda á einu bretti upp á fastaland Skotlands í kringum 1930. Þar með lauk mörg hundruð ára búsetu á einni nóttu. Nú er ég hálfnaður með sjálfsævisöguna Chickenhawk eftir Robert Mason, en hann var þyrluflugmaður í Víetnam stríðinu. 

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?

Nei, því miður á ég sjaldan leið á þá staði. 

Áttu þér uppáhaldsbókabúð?

Ég verð að segja vefsíða Amazon.com. 

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?

Á milli 30 og 40, svo er slatti í geymslu eða á leiðinni í gáminn. 

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?

Á bilinu 8-10 bækur. 

Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?

Foreldrar mínir gefa mér alltaf sagnfræðilegar bækur eftir íslenska rithöfunda í jólagjöf sbr. Illuga Jökulsson. 

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?

Þegar ég var tíu ára gamall gaf amma mín mér bók um Danadrottningu, þetta var gömul bók og mikil en mér fannst þetta ekki spennandi gjöf en líklega hefur þetta verið verðmæt bók, hún mat bækur mikils líkt og fólk af hennar kynslóð. Bókin er týnd og líklega löngu orðin að uppfyllingu einhvers staðar í jörðinni en ég kunni því miður ekki að meta hana á þeim tíma er ég fékk hana að gjöf. 

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?

Það er erfitt að ferðast um Ísland án þess að drepa niður fæti á sögustað, annað hvort úr Íslendingasögum eða annálum, en ég hef ekki gert mér sérstaka ferð til þess. 

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?

Það er vandasamt að velja bækur handa fólki nema maður geri sér grein fyrir hvar áhugi viðkomandi liggur. Ég myndi líklega gefa Maríu konu minni nýjustu bók Yrsu Sigurðardóttur ef foreldrar mínir gerðu það ekki um hver jól. Á heimilinu hefur myndast hefð sem er þannig að foreldrar mínir gefa fjölskyldumeðlimum bækur í jólagjöf en þá hafa þeir fengið vísbendingar frá hverjum og einum um hvaða bók sé efst á óskalistanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir