Bilað í bíó
Einhverjir hafa sennilega hugsað sér gott til glóðarinnar á köldu og blauti sumri og ætlað að skella sér í Króksbíó til að sjá sjóðheita nýja ABBA-mynd eða Antman eða einhverja aðra magnaða ræmu og maula popp. Einhver máttarvöld virðast þó hafa gripið inn í og stoppað þessa drauma í fæðingu því fyrir nokkru bilaði sýningarvélin í Króksbíói og útlit fyrir að einhver bið verði á bótum.
Að sögn Sigurbjörns Björnssonar bíóstjóra á Sauðárkróki var stykki úr sýningarvélinni sent erlendis til Dolby sem virðast því miður vera með nokkrar vélar í viðgerð og fengu rekstaraðilar Króksbíós þær upplýsingar í gær að það gætu orðið nokkrar vikur í að þeir Dolbymenn komist í verkið. Að sögn Sibba er þó verið að skoða flýtimeðferð en ekkert er enn í hendi varðandi þau mál.
Mamma Mia 2: Here We Go Again og Antman 2 verða sýndar um leið og tækin komast í gang og segir Sibbi að bíóunnendur verði bara að halda bíóandanum niðri í sér. „Það þarf ekkert að fara annað – bara bíða.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.