Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra

Það eru sviptingar í stjórnmálunum þessa dagana. Í kjölfar þess að Katrín Jakobsdóttir, sem verið hefur forsætisráðherra síðustu sex og hálft árið í ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ákvað að venda sínu kvæði í kross og gefa kost á sér í embætti forseta Íslands, baðst hún um helgina lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Guðni forseti féllst á beiðnina en bað Katrínu að gegna embætti þar til ríkisstjórnarflokkarnir réðu ráðum sínum. Nú hafa flokkarnir þrír komist að niðurstöðu og mun Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, taka við stöðu forsætisráðherra.

Nokkrar ráðherrahrókeringar verða við þessi tímamót. Þannig mun Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fara yfir í utanríkisráðuneytið að nýju eftir stutt stopp í fjármálaráðuneytinu. Þar tekur hins vegar Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, við lyklavöldum og verður fyrsti fjármálaráðherra Framsóknar í heil 45 ár.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra VG fetar í spor Sigurðar Inga í innviðaráðuneytinu og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tekur við af Svandísi en Ólafsfirðingurinn Bjarkey verður þar með ráðherra í fyrsta sinn. Guðmundur Ingi Guðbrandsson er nú orðinn formaður VG þar sem Katrín er hætt. Hann mun áfram gegna embætti félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Ríkisráðsfundur er áætlaður á Bessastöðum í kvöld en þar mun þá væntanlega ný ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar taka við.

Hér geta áhugasamir fundið starfsreglur ríkisráðs >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir