Bjarni vill afturkalla hækkun veitna
Bjarni Jónsson, Vg, lagði á síðasta fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar fram tillögu þess efnis að sökum aðstæðna í þjóðfélaginu yrði afturkölluð 5% gjaldskrárhækkun Skagafjarðaveitna sem fyrirhuguð er þann 1. nóvember.
Í tillögu Bjarna segir; Það verði gert í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem nú er komin upp í íslensku samfélagi og kemur illa við fjárhag heimilanna. Þá hafa forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga beint því til sveitarfélaganna í landinu að fara sér hægt í gjaldskrárhækkunum við þær erfiðu aðstæður, sem nú eru uppi.“ Var tillaga Bjarna borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæmum gegn einu.
Á heimasíðu ASÍ hvetja samtökin til þess að sveitarfélögin kappkosti að hækka ekki gjaldskrár fyrir þjónustu eins og leikskóla og gæslugjöld, almenningssamgöngur og gjaldskrár fyrirtækja sinna líkt og veitufyrirtækja. Auk þess er brýnt að hækka ekki aðrar álögur á íbúa, t.d. vegna fasteignagjalda. Að sama skapi er mikilvægt að stofnanir og fyrirtæki á vegum ríkisins fari að þessu fordæmi og haldi gjaldskrám fyrir þjónustu sína óbreyttum. Þetta eru allt mikilvægir liðir í því að kynda ekki undir frekari verðbólgu og auka enn á erfiða stöðu heimilanna um þessar mundir.