Bjart framundan hjá Pure Natura

Hildur Þóra Magnúsdóttir stofnandi fyrirtækisins ásamt teymi frá Icelandic Startups. AÐSENDAR MYNDIR
Hildur Þóra Magnúsdóttir stofnandi fyrirtækisins ásamt teymi frá Icelandic Startups. AÐSENDAR MYNDIR

Pure Natura var stofnað 2015 og framleiðir svökölluð fæðuunnin bætiefni eða bætiefni sem unnin eru úr raunverulegum mat. „Við nýtum næringaþéttustu fæðu sem fyrirfinnst, innmat úr íslenskum lömbum, eins og lifur, hjörtu, nýru, eistu og þess háttar, en auk þess nýtum við einnig heilsujurtir í vörurnar til að styðja enn frekar við virkni þeirra.  Það þekkja t.d. allir lýsi og þá eiginleika sem það inniheldur, en lýsi er einmitt líka unnið úr innmat – bara innmat úr þorski en ekki lambi,“ segir Hildur Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Pure Natura, í samtali við Feyki. Hildur er M.Sc. í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Árósaháskóla en starfaði áður sem atvinnuráðgjafi hjá SSNV. Hún er búsett á Ríp í Hegranesi.

Í dag starfa tveir starfsmenn í 100% starfi hjá fyrirtækinu auk þess sem þrír starfsmenn til viðbótar vinna þar hlutastarfi. Þá útvistar Pure Natura þjónustu eins og bókhaldi, hönnun, rannsóknum, frostþurrkun, pökkun, prentun og lögfræðiþjónustu. 

Hildur segir að í upphafi hafi fyrirtækið fengið lán hjá Byggðastofnun og nýtti það fjár-magn til að standsetja vinnslu í leiguhúsnæði að Háeyri 6, á bak við Sláturhús KS á Sauðárkróki. Þar var varan unnin að öllu leyti nema því að henni var pakkað hjá Vilkó á Blönduósi. „Húsnæðið var hins vegar selt árið 2018 og nýr eigandi,  hafði önnur plön fyrir það og stóð því Pure Natura uppi húsnæðislaust og þurfti að hugsa hratt til að missa ekki niður þann markað sem félagið hafði þegar skapað sér. En það er auðvitað ekki í boði að  eiga ekki vörur í lengri tíma fyrir viðskiptavini, en á þessum tíma voru vörur Pure Natura fáanlegar í Heilsubúð-um á Íslandi, í Fríhöfninni og á Amazon í Bandaríkjunum. Til að koma í veg fyrir vöruskort flaug ég  því, ásamt Sigríði Ævarsdóttur, þáverandi vöruþróunarstjóra Pure Natura til Bretlands í leit að samstarfsaðilum til að aðstoða okkur við framleiðsluna. Það tókst vel og er hráefnið okkar enn í dag, fyrst unnið í Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd en þaðan er það sent til Bretlands þar sem það er fullunnið og vörunni pakkað og síðan eru tilbúnar vörur sendar til Íslands. Við  framleiðum reyndar einnig vörur fyrir mjög flott fyrirtæki í Bretlandi og þær vörur verða auðvitað eftir í Bretlandi.“

Vinnsluaðferðin sú sama og hjá NASA 

Hvers konar vörur framleiðir Pure Natura? „Hugmyndafræði okkar byggir á því að það sé best að fá vítamín og steinefni úr raunverulegum mat þar sem þau koma í samvirkni hvert við annað og upptaka efnanna í líkamanum er oftast mun betri en þegar um framleidd vítamín og steinefni er að ræða. Með því að setja innmat í töfluform skapast þannig tækifæri fyrir alla þá sem vantar kannski járn eða B-vítamín að fá það á náttúrulegu formi úr innmat en án þess að þurfa að borða lifur eða nýru, en mjög mörgum líkar ekki bragðið og áferðin eða kunna ekki að elda hann svo þeim líki. Vinnsluaðferð Pure Natura er mjög mild (í raun sama vinnsla og NASA notar til að varðveita mat fyrir geimfarana sína) og því skemmast engin næringarefni við framleiðsluna og má því í raun færa rök fyrir því að betra sé jafnvel að neyta innmatar á þennan hátt heldur en að elda hann því við hitun skemmast alltaf ákveðin vítamín.“

Hvert er markmið fyrirtækisins og ertu ánægð með þann árangur sem hingað til hefur náðst? „Markmið fyrirtækisins er fullnýting íslenskra landbúnaðarafurða eða svokölluð nose to tail hugmyndafræði sem snýst um að nýta eigi alla skepnuna til verðmætasköpunar. Okkur hefur gengið vel að þróa vörurnar, fyrirtækið fékk tuttugu milljón króna styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís 2018, auk styrks úr Sóknaráætlun Norðurlands vestra, sem hjálpaði okkur að borga fyrir þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru við þróun á slíkum bætiefnum. Við viljum búa til sem mestar útflutningstekjur úr þessari frábæru innlendu afurð og seljum í dag vörur okkar í nokkrum löndum utan Íslands auk þess að senda hvert sem er í heiminum ef pantað er gegnum vefverslun hjá okkur. Markmið okkar er að auka hlutdeild okkar á innlendum markaði á næstu mánuðum, m.a. með fjölgun útsölustaða og auðveldara aðgengi viðskiptavina að vörunni. Á nýju ári munum við svo setja enn meiri orku í Bandaríkjamarkað og náum vonandi enn stærri sneið af kökunni þar á næstu árum.  En við erum ánægð með þann árangur sem náðst hefur, fyrirtækið er farið að skila hagnaði og framtíðin er björt.“ 

Hver er sérstaða Pure Natura? „Sérstaða Pure Natura er, og verður alltaf, íslenska hráefnið. Við höfum séð það á þeim fjölmörgu rannsóknum sem við höfum látið gera á hráefninu hversu hreint og næringarríkt það raunverulega er,“ segir Hildur og heldur áfram. „Það er nefnilega ekki sama hvaðan gott kemur, innmatur úr dýrum sem alin eru með hormónum og sýklalyfjum og dýrið látið éta jafnvel skordýraeitursspreyjað hey eða erfðabreytt korn er ekki endilega það gæðahráefni sem heilsumeðvitaðir einstaklingar vilja neyta eða sjá í bætiefnum sínum. Því skiptir hráefnið mestu máli í okkar framleiðslu og áherslan klárlega á íslenska hreinleikann.“ 

Senda vöruna heim að dyrum í áskrift

Hildur segir að markhópurinn sé og verði alltaf fólk sem er umhugað um heilsuna. „Hinsvegar eru vörunar okkar ólíkar og markhópurinn því breytilegur milli vara. Þannig hentar NÆRING sem fjölvítamín fyrir alla fjölskylduna, allt frá ungum börnum til aldraðra einstaklinga. NÆRING er góð fyrir þá sem vilja tryggja að líkaminn fái þá næringu sem hann þarf til þess að geta starfað á sem allra bestan hátt.  ORKA er hinsvegar vara sem er sérhönnuð með þarfir fólks sem er undir álagi í huga, hvort sem það er íþróttafólk sem æfir mikið eða stjórnandi fyrirtækis sem er undir miklu andlegu álagi.  Einnig erum við með vöru sem heitir HREINSUN sem eins og nafnið gefur til kynna, styður við lifrina og hreinsun líkamans auk þess að styðja við efnaskiptin og draga úr bólgum og bjúg.  JAFNVÆGI er síðasta en ekki sísta varan okkar en hún er fyrir hjarta- og æðakerfið auk þess að stuðla að jafnvægi í líkamanum öllum.“ 

Eru notendur ánægðir með vöruna? „Fólk er mjög ánægt með vörurnar frá okkur, enda getur það treyst því að allar okkar vörur eru hágæða vara þar sem hver og ein framleiðslulota er rannsökuð með tilliti til gæða og öryggis áður en hún er sett á markað. Við byrjuðum nýlega að bjóða upp á vörurnar okkar í áskrift þar sem þær eru sendar heim að dyrum til fólks annan hvern mánuð og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa og fjölmargir skráð sig í áskrift. Enda er mjög algengt að fólk verði fastakúnnar að vörunum okkar þegar það byrjar að taka þær inn.“

Hildur segir fyrirtækið hingað til hafa verið í samstarfi við MATÍS með vöruþróunina en samsetning á vörunum var í höndum Sigríðar Ævarsdóttur, vöruþróunarstjóra hjá Pure Natura, sem lét af störfum um síðustu áramót. Nú er það Rafn Franklín Johnson sem sér um þessa hlið mála en hann kom einnig nýlega inn í fyrirtækið sem fjárfestir.

Hefur fyrirtækið vaxið frá því það var sett á laggirnar? „Það er gaman að segja frá því að fyrir skemmstu komu nýir fjárfestar inn í félagið en fyrir þeim hópi fór Rafn Franklín Johnson, þjálfari hjá Hreyfingu og heilsuráðgjafi hjá 360°  heilsa. Rafn heillaðist af vörunum og eftir að hafa notað þær í nokkurn tíma sjálfur, og fengið sína kúnna til þess líka með góðum árangri, sá hann í þeim tækifæri. Rafn fékk til liðs við sig tvo aðra fjárfesta sem síðan höfðu samband hingað norður og buðu í hlut í félaginu, sem þáverandi eigendur gengu að.“ Að sögn Hildar er markmiðið með aðkomu þeirra að auka veg Pure Natura, bæta heilsu enn fleiri viðskiptavina og  auka nýtingu íslenskra landbúnaðaraðfurða. „Með því að fá inn þessa sterku fjárfesta telur Pure Natura sig betur í stakk búið til að takast á við þau áform sem framundan eru hjá félaginu.“

Talar þú um Pure Natura sem skagfirskt fyrirtæki? „Pure Natura er svo sannarlega skagfirskt fyrirtæki og erum við mjög stolt af því að tala um uppruna félagsins hér í héraði, meira að segja svo stolt að við erum að endurhanna vörumerkið okkar með það í huga að setja enn meiri áherslu á Skagafjörð,“ segir Hiildur.

Nú lifum við sérstaka tíma þar sem heimurinn er hálf lamaður vegna heimsfaraldurs. Hefur COVID-19 áhrif á sölu og framleiðslu Pure Natura? „Covid hefur ekki haft tilfinnanleg áhrif á sölu eða framleiðslu Pure Natura að neinu ráði. Sem betur fer er hægt að eiga viðskipti við fólk og fyrirtæki um allan heim í gegnum tölvur og tækni nú til dags og nýtum við okkur hjá Pure Natura það óspart.“

Hvað hefur helst komið þér á óvart í þessu ferli frá því að Pure Natura varð til? „Að jafnvel þótt það þurfi þrautseigju og mikla vinnu til að keyra svona verkefni áfram, þá hefur mér aldrei leiðst í þessu verkefni. Auk þess hef ég fengið að kynnast endalaust mörgu skemmtilegu fólki og fyrir það verð ég endalaust þakklát,“ segir Hildur að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir