Páll Óskar fær mig til að rífa í handbremsuna, stökkva út og dansa í bílljósunum / HRAFNHILDUR ÝR

Hrafnhildur, sem er árgerð 1978, býr nú á Sámsstöðum í Fljótshlíð en ólst upp í Dæli í Víðidal eða upp á engilsaxnesku Pumping in Wide Valley. Hún segist hafa náð ótrúlegri frægð í Húnaþingi vestra en líklega er hún hvað þekktust fyrir að vinna Söngkeppni framhaldsskólanna, fyrir heldur mörgum árum eins og hún segir sjálf, eða árið 1995. Þegar Hrafnhildur er spurð að því hvert sé hennar aðalhljóðfæri svarar hún því til að það séu raddböndin.

Uppáhalds tónlistartímabil?  Blómatími hipparokksins með Led Zeppelin fremsta í flokki.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Páll Óskar, Jón Jónsson og Svavar Knútur svo einhverjir séu nefndir.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?  Man eftir mér 4 ára syngjandi hástöfum með Another One Bites The Dust, Prins Póló og Vegir liggja til allra átta.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta kasettan sem ég keypti mér var Guns and Roses – Appetite for Destruction. Fyrsti diskurinn var með Jet Black Joe. Fyrsta niðurhalið sem ég keypti mér var Kiss in the Morning með Jóni Jónssyni (svolítill late bloomer í netmúsíkinni).

Hvaða græjur varstu þá með? Forlátu fermingargræjurnar mínar sem voru ÆÐISGENGNAR með plötuspilara, geislaspilara og tvöföldu kasettutæki.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? It’s Raining Men?

Wham! eða Duran? Úff!! Ég náði nú aldrei að taka almennilega afstöðu í þessari deilu. Ég átti Wham galla og var með Duran Duran plaköt hangandi uppi í herberginu mínu. Ætlaði líka að giftast John Taylor, annars bara Andy ef það gengi ekki…

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Páll Óskar fær mig til að rífa í handbremsuna á bílnum, stökkva út og dansa í bílljósunum…hann hlýtur að geta reddað partýinu líka.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Aretha Franklin, Jón Jónsson eða Svavar Knút.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ef ég mætti nota tímavélina mundi ég spóla til baka og skella mér á Led Zeppelin tónleika í Laugardalshöllinni með Eyva bróður. Í rauntíma væri það Goggi Mækúls í London með Elfu Hrönn Friðriksdóttur, við þyrftum að sjálfsögðu báðar að vera með handklæði á hausnum.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Dettur enginn í hug.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Led Zeppelin II, þó svo að Stairway to Heaven sé ekki á henni!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir