Blöndubrúin enn ókláruð

Framkvæmdum við brúna yfir Blöndu er ekki lokið enn. Mynd: KSE
Framkvæmdum við brúna yfir Blöndu er ekki lokið enn. Mynd: KSE

Á fundi byggðaráðs Blönduósbæjar þann 27. júní sl. var skorað á stjórnvöld að tryggja fjármagn í áframhaldandi framkvæmdir við Blöndubrú og þjóðveg 1 í gegnum Blönduós en þeim framkvæmdum er enn ekki lokið. Þar segir að umferðin um Blönduós hafi aukist til muna undanfarin ár og íbúar og bæjarfulltrúar hafi um árabil barist fyrir lagfæringum á Blöndubrú sem farið hafi af stað en sé ekki enn lokið. Mikilvægur þáttur í framkvæmdinni sé að tryggja öryggi gangandi vegfarenda með því að byggja göngubrú yfir Blöndu.

Framkvæmdir við brúna hafa staðið í tæpt ár eða frá því í ágúst í fyrra. Átti þeim að ljúka fyrir síðustu áramót en þar sem brúin reyndist verr farin en áður var talið drógust framkvæmdir á langinn. Brúargólfið var brotið upp og nýtt steypt í staðinn og jafnframt var það breikkað um 60-70 cm. Einnig var sett nýtt vegrið sunnan megin á brúna. Þá átti að breikka þjóðveg 1 beggja vegna brúarinnar í takt við breikkunina á brúnni en það hefur enn ekki verið gert.  

Fleiri fréttir