Blönduósingurinn Eysteinn Pétur er nýr framkvæmdastjóri KSÍ

Eysteinn Pétur Lárusson. MYND AF VEF KSÍ
Eysteinn Pétur Lárusson. MYND AF VEF KSÍ

Varnarjaxlinn ólseigi, Eysteinn Pétur Lárusson, Blönduósingur og Bliki síðustu árin, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri KSÍ en hann mun hefja störf 1. september 2024. Eysteinn Pétur kemur til KSÍ frá Breiðabliki þar sem hann var framkvæmdastjóri aðalstjórnar og áður knattspyrnudeildar félagsins í rúm 10 ár.

Eysteinn Pétur kemur til KSÍ frá Breiðabliki þar sem hann var framkvæmdastjóri aðalstjórnar og áður knattspyrnudeildar félagsins í rúm tíu ár. Breiðablik rekur tólf deildir sem samanstanda af rúmlega 3.000 iðkendum. Áður en Eysteinn fór til Breiðabliks starfaði hann sem framkvæmdastjóri og þjálfari knattspyrnudeildar hjá Hvöt á Blönduósi og Þrótti í Reykjavík þar sem hann var einnig íþróttastjóri. Eysteinn hefur því víðtæka reynslu á sviði íþrótta og knattspyrnu.

„Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að hafa orðið fyrir valinu og hlakka ég til að takast á við komandi verkefni innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Ég mun kveðja Breiðablik með söknuði og miklu þakklæti til alls þess frábæra fólks sem kemur að félaginu með einum eða öðrum hætti,” segir Eysteinn Pétur nýr framkvæmdastjóri KSÍ í spjalli á vef Knattspyrnusambands Íslands.

Eysteinn er uppalinn á Blönduósi og bjó þar til tvítugs. Eysteinn, sem er sonur Lárusar Jónssonar og Sigrúnar Zophoníasdóttir, er með B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og MLM gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hann er giftur Brynhildi Olgu Haraldsdóttur og eiga þau þrjá syni. Hilda er Króksari, dóttir Halla heitins Guðbergs og Ingu Guðbjarts.

Eysteinn, sem er fæddur árið 1978, gerði fótboltagarðinn frægan með liðum Hvatar, Tindastóls og síðast Kormáki/Hvöt sumarið 2013. Bestu árin átti hann þó með liði Þróttar Reykjavík í efstu og næstefstu deild þar sem hann var m.a. fyrirliði um árabil. Það má geta þess að hann skoraði eitt mark fyrir Tindastól í 1. deildinni sumarið 2000. Það var í leik gegn Sindra sem endaði með 2-1 sigri. Skráð er í annála KSÍ að Eysteinn hafi skorað á 38. mínútu en sex mínútum síðar hafi Örn læknir fengið að líta rauða spjaldið á bekknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir