Blönduskólakrakkar fóru í langa göngu
Þriðjudaginn 31. ágúst fóru unglingarnir í Blönduskóla í gönguferð með umsjónarkennurum sínum. Er þetta annað árið sem farið er í svona ferð, í fyrra var gengið á Spákonufell. Að þessu sinni var gengið upp frá Ystagili í Langadal og sem leið lá upp í Vatnadal.
Nokkur hress ungmenni úr hópnum fóru svo lengra upp og gengu lengra upp á fjallið þar til þau sáu yfir í Sauðadal á Laxárdal. Var gengið í blíðskaparveðri og sást vel yfir heimahagana ofan af Björnólfsstaðahnjúkum og svo auðvitað ofan af Langadalsfjallinu. Skemmtu allir sér hið besta og ekki spillti góður félagsskapur fyrir.
Eftir gönguna var haldið í Húnaver þar sem allir hámuðu í sig hamborgara, fóru í leiki og hlustuðu á sögur fram yfir miðnættið.
Á miðvikudagsmorgun liðkaði hópurinn sig svo til og gekk inn að Þverárdal í sól og blíðu. Var ekki annað að sjá á hópnum en að ferðin hafi heppnast vel og heyrðist jafnvel umræða um hvort ekki væri möguleiki á að hafa svona gönguferðir oftar á skólaárinu.
/Blönduskóli
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.