Bókasafn Skagastrandar komið með aðgang að Rafbókasafninu

Skjámynd af forsíðu Rafbókasafnsins.
Skjámynd af forsíðu Rafbókasafnsins.

Bókasafn Skagastrandar er nú komið með aðgang að Rafbókasafninu sem er samstarfsverkefni Landskerfis bókasafna og Borgarbókasafns Reykjavíkur. Á vef Rafbókasafnsins segir að markmið verkefnisins sé að bjóða almenningi upp á aðgang að fjölbreyttu úrvali raf- og hljóðbóka. Rafbókasafnið er nú aðgengilegt lánþegum nær allra almenningsbókasafna á Íslandi eða 62 söfnum. Enn sem komið er eru flestar bækurnar á ensku en stefnt er að því að auka framboðið á íslensku efni sem fyrst.

Rafbókasafnið er langþráð viðbót í bókasafnsflóruna og inniheldur fjölbreyttan safnkost, líkt og á öðrum bókasöfnum. Þar má finna skáldverk, fræðirit og rit almenns efnis, bæði nýtt og eldra efni, að því er segir á vef Skagastrandar. Meginhluti efnisins er á formi rafbóka, en hlutur hljóðbóka fer ört stækkandi.

Aðgangurinn að Rafbókasafninu er innifalinn í árgjaldi til Bókasafns Skagastrandar. Til að virkja aðgang að rafbókasafninu þarf að  koma við á bókasafninu og fá bókasafnsskírteini og notendanúmer og lykilorð til að nota á heimasíðu Rafbókasafnsins. „Rafbækurnar má ýmist lesa á vef safnsins, rafbokasafnid.is, eða á snjalltækjum í gegnum Overdrive-appið (finnst í App store og Play Store). Þannig geta lesendur notað hvert tækifæri til að lesa sínar bækur, í síma eða á spjaldtölvu, hvar sem er og hvenær sem er. Í raun þýðir þetta að lesendur hafa heilt bókasafn í vasanum. Rafbókasafnið er alltaf opið og þar eru engar sektir, því kerfið sér sjálft um að skila bókum þegar lánstími er útrunninn“ segir á vef Skagastrandar.

Árgjaldið hjá Bókasafni Skagastrandar er 2.050 krónur. Aldraðir og öryrkjar fá frí skírteini en þeir þurfa að framvísa örorkuskírteini hjá bókaverði. Börn og ungmenni sem eru 18 ára og yngri fá einnig frí bókasafnsskírteini.

Opnunartími bókasafnsins er:

  • Mánudagar kl. 16-19.
  • Miðvikudagar kl. 15-17.
  • Fimmtudagar kl. 15-17.

Fleiri fréttir