Bölvar og Ragnar hafa yfirgefið Kela - Nýliðar í golfi - Keli og Lydía

Nýliðar voru áberandi í starfi GSS í sumar en metþátttaka var á árlegu nýliðanámskeiði í júní. Formaður klúbbsins brá sér í hlutverk blaðamanns og tók nokkra þeirra tali og hefur Feykir birt viðtöl í nokkrum blöðum.

Þorkel Vilhelm Þorsteinsson og Þorfinnu Lydíu Jósafatsdóttur á Sauðárkróki þekkja flestir sem Kela og Lydíu. Sá fyrrnefndi hefur sem kunnugt er starfað við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra svo lengi sem elstu menn muna og Lýdía, sem er grunnskólakennari vinnur í Árskóla. Þau hafa verið félagar í Golfklúbbi Skagafjarðar sl. þrjú ár en hafa lítið spilað fyrr en í sumar. „Við höfum alltaf skráð okkur á byrjendanámskeiðin, en fallið á mætingu,“ segja þau og hlæja. En nú eru þau loks komin á fullt og hafa verið tíðir gestir á vellinum eftir verslunarmannahelgi.

Þau hjón segjast ekki enn hafa tekið þátt í mótum, en það standi til bóta á næsta ári.  Keli segir að þeir „félagar“ Bölvar og Ragnar hafi yfirgefið hann þegar góðu höggunum fjölgaði og þau eru sammála um að golfið sé frábær útivera.  Það kom þeim á óvart hvað golfið getur verið skemmtilegt en annað sem kom á óvart var gott veður á vellinum. Lydía segir að Kela vanti bolta með neyðarsendi og ljósi, því hann sé einstaklega laginn við að týna þeim. 
@Kristján Bjarni Halldórsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir