Breiðhyltingar reyndust sterkari gegn baráttuglöðum Stólastúlkum

Barátta undir körfu Tindastóls. MYND: HJALTI ÁRNA
Barátta undir körfu Tindastóls. MYND: HJALTI ÁRNA

Stólastúlkur spiluðu annan leik sinn í 1. deild kvenna í gær þegar sterkt lið ÍR mætti í Síkið. Lið Tindastóls gerði vel í fyrsta leikhluta en villuvandræði lykilleikmanns snemma leiks dró svolítið úr heimastúlkum og Breiðhyltingar gengu á lagið og tryggðu sér sigurinn með góðum leik í þriðja leikhluta. Lokatölur 52-75.

Það hefur jafnan verið á brattan að sækja hjá Stólastúlkum gegn liði ÍR sem hafa síðustu árin verið sterkar og reynslumiklar. Lið ÍR byrjaði betur en fimm stig frá Ingu Sólveigu komu heimastúlkum á bragðið og með góðum leik náðu þær forystunni og leiddu 15-9 þegar rúmar sjö mínútur voru liðnar. Maddie Sutton nældi sér í tvær villur seint í fyrsta leikhlutanum og hafði fengið fyrstu villuna snemma leiks og þetta flækti leikinn fyrir lið Tindastóls. Jafnt var, 16-16, þegar annar leikhluti hófst en það var ekki fyrr en um hann miðjan sem gestirnir náðu forystunni. Þær náðu mest ellefu stiga forystu fyrir hlé en körfur frá Maddie og Evu Rún löguðu stöðuna. Staðan 33-40 í hálfleik.

Lið ÍR hóf síðari hálfleikinn sterkt og voru fljótlega komnar 15 stigum yfir, 35-50. Jan tók þá leikhlé og í kjölfarið lagaði Maddie stöðuna fyrir heimastúlkur, gerði sjö stig í röð og minnkaði muninn í ellefu stig, staðan 42-53 og fjórar mínútur eftir af þriðja leikhluta. Gestirnir fundu hinsvegar taktinn á ný og skelltu í lás í vörninni því lið Tindastóls náði ekki að bæta við stigum í heilar tíu mínútur eða þar til tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Þá var staðan orðin 42-70. Stelpurnar okkar gáfust þó ekkert upp og náðu að laga stöðuna lítillega fyrir leikslok.

Maddie var stigahæst með 15 stig en í gær var það Ksenja sem skilaði mestu framlagi Stólastúlkna, gerði 10 stig, tók sjö fráköst og átti sex stoðsendingar. Inga Sólveig skilaði tíu stigum á töfluna og þremur fráköstum en Eva Rún gerði sjö stig og tók sjö fráköst. Í liði ÍR var Danielle Reinwald best en hún gerði 17 stig og hirti 14 fráköst og á hæla hennar kom Kristín Matthíasdóttir sem gerði 16 stig og tók fimm fráköst.

Í spjalli við Hjalta Árna á Karfan.is sagði Jan Bezica þjálfari Tindastóls að lið sitt hefði spilað betur en í fyrsta leik tímabilsins, liðið hefði undirbúið sig vel fyrir að mæta sterku liði ÍR en reynsluleysi hefði komið í kollinn á Stólunum. Hann var ánægður með að Stólastúlkur voru sterkar og börðust allt til loka leiks. Næsti leikur liðsins er í Vesturbænum, rétt eins og hjá strákunum, og taka KR-stúlkur á móti Stólastúlkum nk. laugardag kl. 18:00.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir