Breytingar á framkvæmd menningarstyrkja
Á fundi Menningarráðs Norðurlands vestra í nóvember sl. var rætt um hlutverk, markmið og stefnumótun Menningarráðs Norðurlands vestra en til stendur að fjármunir menningarstyrkja færist frá menningarráðum landshlutanna til uppbyggingarsjóðs, ásamt fjármunum vaxtarsamnings.
Nokkur óvissa ríkir um hvað breytingin hefur í för með sér og hafa menningarfulltrúar landshlutanna ályktað um málið. Stjórnir landshlutasamtakanna hafa einnig sent inn athugasemdir við drögin.
Fyrir fundinum í nóvember lágu gögn frá Stýrihópi um byggðamál frá september sl., þ.e. drög að samningi um Sóknaráætlun og drög að úthlutunarreglum svokallaðs uppbyggingarsjóðs. Í þeim gögnum kemur m.a. fram að til stendur að framlög til menningarmála verði hluti af sérstökum uppbyggingarsjóði landshlutans og muni sérstök úthlutunarnefnd sjá um úthlutum styrkja.
Á fundinum var einnig kynnt umsögn menningarfulltrúa landshlutanna þar sem gerðar eru verulegar athugasemdir við drögin en á fundi menningarfulltrúanna í október sl. var samþykkt sameiginleg ályktun þeirra. Þar segir m.a. að sátt ríki um menningarsamningana og framkvæmd þeirra, hvort sem litið er til sveitarfélaganna, listamanna eða menningarstofnana. Reynslan af starfsemi menningarráðanna á landsbyggðinni hafi verið góð og í góðu samræmi við menningarstefnu ríkisins.
„ Þegar breytingar standa fyrir dyrum...er áríðandi að tryggja að þær verði til þess að efla og styrkja menningarstarf á landsbyggðinni. Samfella þarf að vera í stuðningi við menningarstofnanir og verkefni en mörg verkefni á landsbyggðinni eru mjög aðþrengd eftir niðurskurð á fjárframlögum á síðustu árum. Frekari niðurskurður er ekki valkostur og ekki heldur sú stöðnun og jafnvel afturför sem blasir við ef miðað verður við óbreytt framlög til málaflokksins,“ segir ennfremur í ályktun menningarfulltrúanna.