Brúargerð hefði mikil jákvæð áhrif á búsetuskilyrði í framanverðum Skagafirði

Hrefna Jóhannesdóttir er oddviti Akrahrepps og formaður samstarfsnefndar. MYND AF NETINU
Hrefna Jóhannesdóttir er oddviti Akrahrepps og formaður samstarfsnefndar. MYND AF NETINU

Um liðna helgi skapaðist nokkur umræða á samfélagsmiðlum í kjölfar þess að Morgunblaðið sagði frá því að sam­starfs­nefnd Sveit­ar­fé­lags­ins Skaga­fjarðar og Akra­hrepps færi fram á það að brú verði gerð yfir Héraðsvötn á milli Skaga­fjarðar­veg­ar og Kjálka. Að mati nefndarinnar eru trygg­ar sam­göng­ur grunn­ur að því að vel tak­ist til við sam­ein­ingu sveit­ar­fé­lag­anna og að Skag­f­irðing­ar sjái sér hag í því að samþykkja sam­ein­ingu.

Feykir forvitnaðist nánar um málið og setti sig í samband við Hrefnu Jó­hann­es­dótt­ur, odd­vita Akra­hrepps og formann sam­starfs­nefnd­ar­inn­ar.

Hverju myndi brú sem tengir gamla Lýtingsstaðahrepp og Akrahrepp breyta fyrir byggðina, hvaða jákvæðu áhrif hefði brú í för með sér og hver er hugmyndin á bak við brúargerðina? -Hugmyndin á bak við þessa brú er langt í frá ný af nálinni. Bæði íbúar á svæðinu og kjörnir fulltrúar hafa talað fyrir þessum samgöngubótum í nokkra áratugi en góðar samgöngur innan héraðs skipta auðvitað miklu máli fyrir fyrst og fremst íbúana sem þar búa og fara daglega um en einnig fyrir gesti sem sækja í þjónustu og/eða fegurð inndala Skagafjarðar. Íbúar Skagafjarðar sækja oft þá læknisþjónustu til Akureyrar sem ekki er í boði heima í héraði, auk þess sem þessi vegtenging opnar fyrir ýmsa möguleika í sambandi við framboð og eftirspurn á vörum og þjónustu, t.d. ferðaþjónustu. Þetta hefði því mikil jákvæð áhrif á búsetuskilyrði í framanverðum Skagafirði, bæði varðandi styttingu leiða austur um en einnig varðandi viðhald og þjónustu á héraðsvegum.

Hvar væri líklegt að brúin yrði staðsett? -Eftir er að taka endanlega ákvörðun um staðsetningu brúarinnar og þau kort sem birst hafa hingað til gefa til kynna að Akrahreppsmegin yrði staðsetning brúar til móts við Flatatungu. Þetta þarf þó að skoða afar vel og í góðu samráði við landeigendur og Vegagerðina. Þessarar vegtengingar er getið í aðalskipulagi sveitarfélaganna beggja.

Einhverjir virðast hafa áhyggjur af því að brú yrði til þess að leiðin norður í Eyjafjörð styttist og Þjóðvegur 1 færðist til. Eru það óþarfa áhyggjur? -Já, það er ekki verið að hugsa þetta sem styttingu þjóðvegarins á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Við erum fyrst og fremst að hugsa þetta sem nauðsynlegar samgöngubætur innan héraðs enda hafa íbúar kallað eftir þessu lengi. Nú skiptir öllu máli að fylgja þessu eftir og koma þessu, og öðrum nauðsynlegum samgöngubótum í Skagafirði, inn á samgönguáætlun.

Kosið verður um sam­ein­ingu sveit­ar­fé­lag­anna 19. fe­brú­ar nk. og er utan­kjör­fund­ar­at­kvæðagreiðsla þegar haf­in.Hvernig leggjast sameiningarkosningar í þig og hverju hefur þessi vinna skilað helst að þínu mati? -Ég er bjartsýn að eðlisfari og trúi því að Skagfirðingar vilji standa saman sem ein rödd og takast saman á við þau fjölmörgu verkefni sem sveitarfélögunum er ætlað að sinna. Að mínu mati hefur þessi vinna skýrt vel kosti og galla sameiningar og hvaða mögulegu breytingar sameining getur haft í för með sér. Ég hvet alla til þess að kynna sér málin vel, t.d. á heimasíðu verkefnisins skagfirdingar.is, og taka þátt í umræðum þannig að öll sjónarmið heyrist. Þá vonumst við til þess að geta haldið íbúafundi í raunheimum viku af febrúar ef samkomutakmarkanir leyfa.

- - - - -
Feykir minnir á að öllum er frjálst að senda inn aðsendar greinar til birtingar í Feyki og eru þeir sem hafa áhuga á að stinga niður penna, vegna sameiningar eða hvers sem er sem snertir íbúa á Norðurlandi vestra, hvattir til að nýta miðilinn. Hægt er að senda efni á feykir@feykir.is

Fleiri fréttir