Brúsastaðir afurðahæsta kúabú landsins
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins birti sl. föstudag ársuppgjör afurðaskýrslna nautgriparæktarinnar fyrir árið 2014. Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhaldsins í mjólkurframleiðslunni 2014 var búið Brúsastaðir í Vatnsdal með mestu meðalafurðir eða 7.896 kíló eftir hverja kú. Búið var einnig efst á þessum lista eftir árið 2013.
Bú Valdimars Óskars Sigmarssonar í Sólheimum í Sæmundarhlíð í Skagafirði var í sjöunda sæti þar sem meðalárskýrin mjólkaði 7.546 kg síðasta ár.
Þá komust tvær skagfirskar kýr á lista yfir nythæstu kýrnar árið 2014, Agla 361 frá Viðvík í Viðvíkursveit í Skagafirði var sú fjórða í röðinni en hún mjólkaði 12.261 kg á nýliðnu ári með 3,29% af próteini og 4,06% af fitu. Sú fimmta í röðinni var Ausa 306 í Garðakoti í Hjaltadal í Skagafirði sem skilaði 12.198 kg með 3,15% próteini og 3,50% fitu.
579 framleiðendur skiluðu afurðaupplýsingum á árinu en á síðasta ári voru þeir 584. Virkir skýrsluhaldarar voru 575 við lok ársins 2014, skýrsluskil voru 99% þegar gögnin voru tekin út aðfaranótt 23.janúar, samkvæmt frétt Ráðgjafamiðstöðvarinnar.
Á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins má finna töflur með uppgjöri ársins 2014.