Buðu eldri borgurum í Skagafirði til kvöldverðar og skemmtidagskrár
Lionsklúbbur Skagafjarðar hefur að öllu jöfnu aðsetur á Löngumýri í Skagafirði, sem er fræðslusetur kirkjunnar, fyrir fundahöld og viðburði á sínum vegum. Í fyrra tóku þeir uppá þeirri nýbreytni að bjóða eldri borgurum á starfssvæðinu, sem er framhluti Skagafjarðar og Skaginn, til kvöldverðar með skemmtidagskrá í staðinn fyrir ferðalag sem tíðakast hafði. Á Facebooksíðu Löngumýrar segir að það hafi mælst svo vel fyrir að í gær hafi leikurinn verið endurtekinn.
„Fljótlega eftir hádegi fóru félagarnir að tínast að og tóku til hendinni við undirbúninginn, ásamt starfsfólki Löngumýrar, sem fólst m.a. í því að berja kjöt, brjóta servíettur og allt þar á milli. Það eru enda töluvert mörg handtök sem þarf til að leggja á borð fyrir rúmlega hundrað manns og elda lærisneiðar undir fullum seglum með rjómatertu á eftir. Þeir slógu heldur ekki slöku við og sáu auk þess um skemmtidagskrána ásamt Geirmundi sem þandi nikkuna til undirleiks. Svona samkona þegar veturinn gæti minnt á sig hvenær sem er gefur lífinu lit og sást það vel á góðri mætingu og þakklæti á hverju andliti. Klúbbfélagarnir eiga heiður skilinn fyrir sína miklu samfélagsvitund og lipurð sem einkennir allt þeirra starf og viðmót, segir á síðunni en þar er hægt að nálgast fjölda mynda frá kvöldinu góða. Sjá HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.